131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[15:29]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðaust. vefengdi þær yfirlýsingar sem ég gaf sem samgönguráðherra á því herrans ári 1996 varðandi sölu Landssímans. Í 2. mgr. 1. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess óheimil án samþykkis Alþingis.“

Þetta var það frumvarp sem ég lagði fram og varð að lögum. Ef hv. þingmaður er að lýsa mér með háðuglegum orðum, að ég hafi komið illa fram í þessu máli eða siglt undir fölsku flaggi, verður hann að eiga það við sjálfan sig en hér er það svo skýrt sem það getur orðið hvernig málið var lagt fyrir. Hins vegar gerði hv. þingmaður nú eins og áður grín að því að það skyldi aðeins vera eitt hlutabréf sem var tryggingin fyrir því að félagið yrði ekki selt, tákn fyrir því. Hlutabréfin gátu þess vegna verið 100 en öll voru stíluð á ríkið og handhafi þeirra bréfa sá sami í öllum tilvikum.

Hv. þingmaður var mjög ómerkilegur að rifja þetta mál upp með þeim hætti sem hann gerði en eins og hann sagði hér fyrr í dag um sjálfan sig er minni hans ekki óskeikult.

Ég vil í annan stað segja að hv. þingmaður talaði um að ég hefði gert því skóna að Húsvíkingar hygðust selja fyrirtæki sitt eftir að því hefði verið breytt í einkahlutafélag. Hann talar um að það sé ekki á döfinni núna. Hann segir a.m.k. að sá meiri hluti sem nú er muni ekki selja það fyrirtæki. Hann gefur sjálfur í skyn að með því að breyta Orkuveitu Húsavíkur í einkahlutafélag opnist leið til að selja fyrirtækið.