131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[15:31]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var sérkennileg málsvörn hjá hv. þingmanni, að lesa hér upp 1. gr. frumvarpsins sem er eins og hún var og er og hefur alltaf verið og legið fyrir í þingtíðindum. Hins vegar var formbreytingin rædd og það tortryggt að þetta mundi síðan halda. Þegar hæstv. ráðherra var að því spurður í umræðum um þetta mál komu svardagarnir um að þetta yrði ekki gert. Þá var farið að vísa í það að bara eitt hlutabréf yrði gefið út.

Mig misminnir ekkert hvernig 1. gr. frumvarpsins var úr garði gerð, það man ég mjög vel. Það sem ég var að vísa til eru ummæli ráðherrans í þessum umræðum og í kringum þær á þessum vikum og mánuðum 1996 þegar málið var hér mikið hitamál. Við skulum bara fara yfir þær umræður allar saman. Ég skal gera það og senda hv. þingmanni rækilega merkt þau ummæli hans sem ég tel mig muna rétt í þessum efnum áður en við förum að bera hver annan frekari sökum þar um.