131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[16:03]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Umræðan er kannski rétt að hefjast en hæstv. iðnaðarráðherra lýsti því þó yfir hér fyrr í dag að búið væri að taka ákvörðun um framtíðarstefnuna. Mér þykir gott að heyra að kannski eru ekki allir sammála um það og hafa uppi þau orð sem hv. þingmaður viðhafði, að umræðan sé að hefjast.

Mig uggir hins vegar það að þeir ráðherrar tveir úr ríkisstjórninni, frá báðum stjórnarflokkunum, sem skrifuðu undir yfirlýsinguna og fylgdu henni eftir með öðrum yfirlýsingum hafi nú eitthvað fyrir sér í því að sú stefna hafi stuðning í stjórnarflokkunum. Mér finnast sporin hræða í því. Það er ekki eins og að það sé í fyrsta skipti sem við heyrum einhver mótmæli frá þingmönnum stjórnarflokkanna utan af landi þegar á að gera eitthvað. Hver hefur svo endirinn orðið? Hann hefur orðið sá að ríkisstjórnin hefur ævinlega komist upp með það sem hún ætlar sér. Mig uggir að þannig geti nú farið í þessu efni líka en vonandi hef ég ekki rétt fyrir mér í því.