131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[16:13]

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ákaflega merkileg umræða, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið. Við erum að ræða um frumvarp til laga um stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur. Hæstv. ráðherrar hafa talað um að vel komi til greina að breyta rekstrarfyrirkomulagi Landsvirkjunar, trúlega í svipaða átt og við erum að gera hér varðandi Orkuveitu Húsavíkur, sem samflokksmenn hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur hafa beðið okkur stjórnmálamenn um að gera hér á Alþingi. Er þá þar með sagt að sveitarstjórnarmenn á Húsavík muni selja Orkuveitu Húsavíkur eftir þrjú ár? Þetta er mjög langsótt túlkun. Ég vil ekki trúa því.

Ég hafna því að með því að háeffvæða einhver ríkisfyrirtæki eða fyrirtæki í eigu sveitarfélaga sé þar með sjálfgefið að þau verði seld einkafjárfestum í heilu lagi. Slíkt gerist ekki. (Gripið fram í.)