131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[16:59]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram nokkuð merkileg umræða lengi dags, að vísu ekki út af mjög stóru máli, frumvarpinu um að stofna megi einkahlutafélag um Orkuveitu Húsavíkur, en í ljósi þeirra yfirlýsinga sem gefnar hafa verið að undanförnu af stjórnvöldum var von á að út frá þeim mundu spinnast almennar umræður um orkustefnuna og hvert ríkisstjórnin stefnir og hefur stefnt í þeim málum. Ég ætla að fara um það nokkrum orðum.

Oftast má treysta því að sveitarfélög séu að leita leiða til að búa íbúum sínum sem best kjör og sem bestar aðstæður við að búa í sveitarfélögum. Í því sambandi er orkan ekki lítill hluti. Um þetta höfum við dæmi í ýmsar áttir, t.d. þegar Orkubú Vestfjarða var gert að hlutafélagi og síðan var ákveðið að selja það ríkinu. Að vísu tel ég að það mál hafi verið unnið að undirlagi ríkisins að stórum hluta en vafalaust unnu nokkur sveitarfélög á Vestfjörðum að því að Orkubúið yrði selt, einkanlega vegna þess að skuldastaða margra þeirra var orðin með þeim hætti að menn leituðu logandi ljósi að einhverju fé til að reka sveitarfélögin.

Það er staðreynd að við söluna á Orkubúi Vestfjarða á sínum tíma fengu sveitarfélögin fjármuni sem hafa vissulega verið notaðir í rekstur sveitarfélaganna þar og væntanlega orðið til þess að menn hafa getað framkvæmt meira, létt á skuldum eða hagrætt fyrir sér með einum eða öðrum hætti eins og sagt er. Hitt fer heldur ekki á milli mála að salan á Orkubúinu og þeir fjármunir sem þar komu inn eru að verða búnir eða fullnotaðir í sveitarfélögunum vestra. Það er því oft ekki til langrar framtíðar litið þegar menn velja að selja frá sér fyrirtæki eins og Orkuveituna og ekki sama hver kaupandinn er eða hvernig á er haldið í þeim efnum og menn hafa oft orðið að leitast við að tryggja það með samningum.

Orkuveita Reykjavíkur hefur verið að færa út kvíarnar og lendur sínar og þar hafa menn náð samningum í sveitarfélögunum sumum hverjum sem eru íbúunum verulega hagstæðir og hefur orðið til að lækka orkuverð í sveitarfélögunum þar sem Orkuveita Reykjavíkur hefur komið að. Orkuveita Reykjavíkur getur gert þetta m.a. út frá stærð sinni og öflugum rekstri og ekki síst þeirri þekkingu sem hún hefur og reynslu af því að reka hitaveitur.

Ég tel ekki ástæðu til að leggjast gegn því sérstaklega að menn stofni hlutafélag um Orkuveitu Húsavíkur. En eins og ég nefndi í upphafi máls míns eru mörg spor sem hræða í þessum efnum. Þess vegna vona ég í lengstu lög að menn kunni fótum sínum forráð með að horfa til þess sem best er fyrir sveitarfélagið á hverjum tíma og best fyrir íbúa þess varðandi orkuöflun, orkudreifingu og aðgang fólks að þeirri almenningsþörf sem hitinn er að sjálfsögðu og orkan.

Það er ekkert launungarmál að mörg sveitarfélög hafa á undanförnum árum staðið illa fjárhagslega og það hafa verið miklar deilur um það milli ríkis og sveitarfélaga hvernig tekjuskiptingin ætti að vera, m.a. er starfandi sérstök nefnd sem fjallar um tekjuskiptinguna þar sem sveitarfélögin eru vissulega að sækja á um að fá auknar tekjur og víða ekki vanþörf á. En nóg um það.

Það sem mig langar hins vegar að gera að umræðuefni án þess að hafa um það mjög langt mál, ég tel það ekki nauðsynlegt, er stefna ríkisstjórnarinnar í orkumálum eins og hún hefur birst okkur á undanförnum vikum og mánuðum. Við höfum sett orkulög og tekið upp stefnu á markaðsvæðingu orkukerfisins. Síðast fórum við í gegnum lagasetningu til að lagfæra ýmsa ágalla í orkulögunum, í desember sl., sem reyndist hins vegar hafa þær afleiðingar að hækkanir komu víðar fram í allt öðrum mæli en menn höfðu gert ráð fyrir. Ég þarf ekki að tíunda orð ráðamanna og iðnaðarráðherra í þeim efnum en það liggur ljóst fyrir og hefur margoft verið sagt, m.a. í þessum ræðustól og reyndar af fulltrúum Orkustofnunar þegar þeir komu á fund iðnaðarnefndar, að breyting á orkuumhverfinu til samkeppnishátta í því frumvarpi og þeim lögum sem við höfum verið að breyta í þeim efnum, að þar væru engin sérstök tilefni til verulegra hækkana.

Reyndin hefur því miður orðið önnur og við sjáum, einkanlega þar sem fólk þarf að kynda hús sín með rafmagnsorku að þar eru hækkanirnar verulegar og raunar mestar í dreifbýlinu og fámennari byggðarlögum. Staðan er þannig að það er ekki á bætandi víða á landsbyggðinni að auka kostnað sveitarfélaganna og kostnað íbúanna og draga þar með úr möguleikum fólks til að halda heimili á landsbyggðinni og búa á þeim svæðum sem köldust eru og þurfa sérstaklega að nota raforkuna til húshitunar. Um þetta standa enn þá deilur og hæstv. ráðherra iðnaðarmála hefur lýst því yfir að breyta þurfi niðurgreiðslum á húshitun og færa þær jafnvel til og reyna með einhverjum hætti að koma til móts við þær hækkanir sem aldrei var gert ráð fyrir.

Ég segi þetta til að draga fram í umræðunni að ýmislegt sem menn hafa þóst sjá fyrir í lagasetningunni hefur reynst vera vitneskja sem ekki hélt vatni. Við höfum staðið uppi með það og m.a. hafa komið yfirlýsingar frá hæstv. iðnaðarráðherra um að lagfæra þyrfti fjöldamargt í þeim lögum sem við kláruðum í desember sl. og að árið sem var að líða væri tilraunaár þar sem mistökin yrði að leiðrétta jafnvel með sérstökum lagasetningum, fleiri en einni og fleiri en tveimur.

Við töldum sumir hverjir í þessum þingsal að rétt væri að fara hægar í að stíga þessi skref og lögðum til að ákvæðunum um markaðsvæðinguna og samkeppnina væri frestað til næstu áramóta og menn reyndu að átta sig á því hvernig orkuverðið væri saman sett og hvernig það mundi koma út ef menn reiknuðu sig inn í framtíðina eins og lagagreinarnar sögðu til um án þess að virkni þeirra væri komin í gildi. Þær breytingartillögur um frestunarákvæðin lögðum við fram, sá sem hér stendur og hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon, og töldum að við værum að gera málinu gott vegna þess að mönnum hefði þá gefist tími til að takast á við þann veruleika sem síðar kom í ljós, án þess að verið væri að senda fólkinu nýja reikninga með allt öðrum upphæðum en gert hafði verið ráð fyrir þegar við unnum við lagasetninguna og miðað við þær yfirlýsingar sem bæði menn frá Orkustofnun og hæstv. ráðherra höfðu gefið í umræðunni að um engar verulegar hækkanir yrði að ræða vegna breytinga á lagaumhverfinu.

Ég held að allir hafi gengið út frá því að þó að það gætu einhvers staðar komið fram einhver fá prósent til lagfæringar á töxtum yrði almennt ekki um verulegar breytingar að ræða og ekki verulegt misvægi milli hópa þeirra sem nýttu raforkuna, þeirra sem kyntu húsnæði annars vegar eða rækju fyrirtæki hins vegar, hvort menn byggju í byggðarlögum þar sem væru 200 sálir eða fleiri o.s.frv. En þetta hefur því miður allt komið í ljós og við eigum eftir að takast á við það.

Nýlega var gerður samningur um að auka niðurgreiðslur til þeirra sem nota orku til að framleiða í gróðurhúsum, garðyrkjubændanna, og mér sýnist ekki hafi verið vanþörf á því eftir lagasetninguna. Einnig hefur komið fram að til standi að lagfæra niðurgreiðslur varðandi húshitun og vonandi tekst það betur til. Þetta eru náttúrlega afar skrýtin vinnubrögð að fara í gegnum mál án þess að hafa yfirsýn yfir hvað þetta þýði og á hverjum þetta bitnar, en það hefur því miður verið gert.

Núna stöndum við frammi fyrir þeirri yfirlýsingu hæstv. iðnaðarráðherra að yfirtaka eigi og sameina Orkubú Vestfjarða og Rarik í Landsvirkjun, gera það að einu fyrirtæki og að árið 2008 standi til að setja Landsvirkjun, sem þá væri orðið eitt fyrirtæki, í einkavæðingu og sölu. Ég held að þetta séu yfirlýsingar sem menn geti varla búast við að verði mikil sátt um í þjóðfélaginu en um þá stefnumótun munu menn takast á til framtíðar. Eins og hún er fram sett verður henni örugglega haldið á lofti í kosningabaráttunni vorið 2007 og menn munu þurfa að taka afstöðu til þess hvort þeir vilja fara áframhaldandi einkavæðingarleið í orkugeiranum með tilheyrandi kostnaði fyrir fólk í landinu eða hvort menn vilja fara þá leið sem við höfum alla vega hallast að í stjórnarandstöðunni, að ekki bæri að stíga þau skref sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur boðað.

Virðulegi forseti. Í orkulögunum eru ýmis ákvæði sem munu hafa áhrif á orkuverð í framtíðinni, m.a. krafan um arðsemi fyrirtækjanna. Ef krafan um arðsemina á að vera innleidd, eins og mig minnir að hafi verið sett í orkulögin, að eðlilegt væri að gera kröfu til þess á nokkrum árum að arðsemin færi yfir 7% mun það væntanlega leiða til hærra orkuverðs og það frumvarp sem einnig hefur verið til umræðu um að skattleggja orkufyrirtækin mun væntanlega leiða til þess að orkufyrirtækin þurfa að taka inn meiri tekjur því hagnaður þeirra mun verða skattlagður. Samanlagt mun þetta, ásamt rekstrarforminu, verða til þess að neytendur í landinu þurfa að greiða hærra verð í framtíðinni fyrir orkuna eftir markaðsvæðingu og einkavæðingu en í dag. Það kann að vera að hluti af fjármununum komi til baka til þegnanna í landinu í gegnum skattlagninguna á fyrirtækin, auðvitað skilar eitthvað af sér þar en hins vegar er engin trygging fyrir því að sú skattlagning verði rétt vegna þess að hún tengist oft og tíðum því að gerðar eru þær kröfur til fyrirtækjanna sem selja raforku á köldum svæðum landsins, m.a. til húshitunar, að þau skili hagnaði. Þar af leiðandi má færa fyrir því rök að þegar búið er að fara allan hringinn, annars vegar með arðsemina og hins vegar með skattlagninguna séu þeir sem eru á köldustu svæðum landsins og nýta mesta orku að borga til viðbótar meiri hluta arðsins og meiri hluta skattlagningarinnar.

Mér finnst ekki eftirsóknarvert að horfa til þeirrar framtíðar að við séum að taka nýjar tekjur fyrir þá sem eiga orkufyrirtækin, hvort sem það er ríki, borg eða einstaklingar né heldur fyrir ríkið eða sveitarfélögin í skattlagningu á orkufyrirtækin ef það verður til þess að við aukum misvægið. Við gætum verið að gera það, einfaldlega vegna þess að orkuverðið er ekki eins á öllu landinu og verður það sjálfsagt ekki og sum svæði landsins þurfa miklu meira á raforkunni að halda en önnur, m.a. til húshitunar.

Þetta er því mjög athugandi mál og menn verða að vanda sig mjög vel í lagasetningunni og hugsa lengra en bara til þess markmiðs að fara einkavæðingarleiðina. Menn verða að hugsa um þær afleiðingar sem fylgja því að gera það og hvaða kvaðir leggjast á fyrirtækin þegar búið er að einkavæða þau og hvernig þær kvaðir koma niður á fólkið í landinu. Koma þær misjafnlega niður og hvar verða þær þyngstar?

Varla er það vilji okkar sem störfum á hv. Alþingi að ganga á skilyrði þess að halda landinu í byggð og af því að við sjáumst ekki fyrir um að vanda lagasetninguna og gefa okkur góðan tíma við skoðunina séum við að verða þess valdandi að íbúar á landsbyggðinni, sérstaklega á köldum svæðum, séu miklu verr settir eftir breytingarnar en fyrir.

Þetta vildi ég gera að umræðuefni, virðulegi forseti, og láta þessi varnaðarorð koma fram. Ég tel að það sé afar óvarlegt af hæstv. iðnaðarráðherra að göslast fram með yfirlýsingar í þá veru að stefna skuli til einkavæðingar án þess að búið sé með nokkrum hætti að skoða þá endastöðu sem af því getur leitt.