131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stimpilgjald.

66. mál
[18:58]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist. Þess vegna vel ég að koma hér og fara nokkrum orðum um það mál sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hefur gert svo ágætlega grein fyrir og taka það sérstaklega fram að þau eru orðin núna æðimörg árin sem hv. þingmaður hefur barist fyrir því og flutt þetta mál inn á þingið en talað fyrir daufum eyrum með það að gera þær breytingar sem hér um ræðir og hún hefur fært góð rök fyrir því hversu gífurleg lyftistöng það yrði, ekki síst fyrir fjölskyldurnar í landinu, ef fundnar yrðu aðrar leiðir til tekjuöflunar hjá ríkinu en að taka þessi stimpilgjöld.

Af því hv. þm. Margrét Frímannsdóttir var nú svona frekar — hvað getur maður sagt — lítið bjartsýn um að málin hefðu mikið breyst þrátt fyrir yfirlýsingar ráðherra sem oft hafa í orði tekið undir þetta mál þá hlýt ég samt að minnast á það núna að í allri umræðunni um breytingar á lánamarkaði og í umræðu um skattheimtu hefur það komið mjög skýrt fram hjá Samtökum atvinnulífsins að stimpilgjöldin séu vond gjöld og að gera beri breytingar og afnema þau. Ekki eru margir dagar síðan ég sá viðtal við hæstv. fjármálaráðherra í blöðum þar sem hann tók undir það að einmitt vegna þess að þýðingarmikil samtök voru að beita sér í málinu þá væri æskilegt að gera þær breytingar sem hér hefur verið talað um. En hann sagði að það væri bara ekki komið að þeim breytingum, ríkisstjórnin hefði forgangsraðað öðruvísi. Við sem hér erum í þessum sal og störfum á Alþingi vitum auðvitað nákvæmlega hvernig ríkisstjórnin hefur forgangsraðað. Hún hefur ákveðið að forgangsraða þannig varðandi tekjuskattslækkun að þeir fá mest út úr þeirri skattbreytingu sem hafa mest.

Hér er enn eitt dæmi um það að auk þess sem að þetta kæmi fyrirtækjum vel þá yrði þetta gífurleg lyftistöng fyrir fólk stendur í endurkaupum og ekki síst í fyrstu húsnæðiskaupum. Þetta skiptir máli. Þetta er peningur sem virkilega munar um.

Ég ætla að leyfa mér á þessu kvöldi að vera nægilega bjartsýn til þess að trúa því að þegar að stuðningur hefur ágerst úti í samfélaginu við að gera breytingar og afnema stimpilgjöldin að þá fáum við í Samfylkingunni þann stuðning sem þarf til þess að fjármálaráðherra setji í forgang að breyta stimpilgjaldinu. Ég ætla að leyfa mér að vera svo bjartsýn á þessu kvöldi eftir að hafa hlustað á ágætan málflutning hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, talsmanns Samfylkingarinnar og fyrsta flutningsmanns í þessu máli, og ég er alveg sannfærð um að ekki líður á löngu þar til breytingar verða gerðar, í síðasta falli þegar Samfylkingin kemst til valda.