131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Lánshæfismat Landsvirkjunar.

[12:06]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. viðskiptaráðherra, það eru í sjálfu sér ekki tíðindi að það leiði til lakari lánskjara fyrir Landsvirkjun ef hún nýtur ekki ríkisábyrgðar. Ég held að það hafi almennt verið mönnum kunnugt. Þessar fréttir staðfesta hins vegar að það er núna á alþjóðlegum fjármálamarkaði viðurkennd opinber stefna íslensku ríkisstjórnarinnar að til álita komi að einkavæða þetta fyrirtæki.

Þær áhyggjur sem lánveitendur lýsa með þessari greiningu eru líka áhyggjur sem við, skattgreiðendur á Íslandi, eigum að hafa sem ábyrgðarmenn á þessum skuldbindingum. Landsvirkjun hefur gefið út skuldabréf til áratuga sem við vitum ekki einu sinni hvar eru stödd í heiminum, mörg hver, eða hver á þessa stundina og útilokað er að létta ábyrgðum okkar af nema með mjög stórtækum aðgerðum.

Ég ítreka þess vegna þá spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra í gær við umræðuna og hún svaraði ekki: Kemur til greina að einkavæða Landsvirkjun með ábyrgðum okkar, með opinberum ábyrgðum á skuldbindingum fyrirtækisins, að afhenda það einkaaðilum með ábyrgðum skattgreiðenda í landinu? Er hæstv. ráðherra e.t.v. tilbúin til að lýsa því yfir að ekki komi til greina að selja einkaaðilum aðgang að ábyrgðum skattgreiðenda á lánapakka upp á 100 milljarða?