131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Lánshæfismat Landsvirkjunar.

[12:08]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Glannaskapur hæstv. iðnaðarráðherra í yfirlýsingum er þegar farinn að vinna tjón. Ég velti fyrir mér hvort þetta mál, þessi glannaskapur hæstv. ráðherra, hafi verið tekið upp í ríkisstjórn. Það að verið sé að skerða lánshæfismat Landsvirkjunar, eins stærsta fyrirtækis landsins, vegna glannalegra yfirlýsinga er mikill ábyrgðarhlutur. (Gripið fram í.) Það skerðist ef eitthvað er að marka orð hæstv. ráðherra um að hún ætli að einkavæða og selja fyrirtækið.

Sé hins vegar ekkert að marka orð ráðherrans og þau bara sögð út í bláinn og allir trúa því er kannski allt í lagi, enda er það það sem kemur fram hjá Standard & Poor’s, að verði ábyrgðir ríkisins óbreyttar, líka varðandi framtíðarlántökur, muni fyrirtækið halda þessu lánshæfismati.

Verði hins vegar eitthvað að marka yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra um að það eigi að einkavæða og selja Landsvirkjun gefur þetta eftirlitsfyrirtæki Landsvirkjun mínus. Verum minnug þess að meginhluti raforkuframleiðslu Landsvirkjunar er bundinn í stóriðju með langtímasamningum þannig að þar er engu hægt að breyta ef menn ætla að bæta eiginfjárstöðuna. Eina leiðin er þá að selja almennum notendum rafmagn á hærra verði til að styrkja eiginfjárstöðuna eða þá að skrifa eignirnar niður og reikna þær ekki á kostnaðarverði heldur selja þær með afslætti. Það er þá hin leiðin ef það á að fara að bæta eiginfjárstöðu fyrirtækisins.

Alvarlegastar eru, frú forseti, þessar glannalegu yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra sem studdar eru af hæstv. fjármálaráðherra. Ég held að þetta ætti að taka fyrir í ríkisstjórn og ræða.