131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Lánshæfismat Landsvirkjunar.

[12:10]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Fyrir nokkrum dögum vakti það athygli að þingmaður hér á þinginu sakaði fasteignasala á Íslandi, og sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, um að kjafta fasteignaverðið upp. Nú verður gaman að vita hvað sá þingmaður segir við iðnaðar- og viðskiptaráðherra hæstv. þegar hún hefur blaðrað lánshæfismat Landsvirkjunar niður. Það er það sem hefur gerst. Iðnaðarráðherra hæstv. veit greinilega ekki hvað hún vill. Hún hefur engin plön í gangi, engar áætlanir liggja fyrir, málið hefur ekki verið rætt í öðrum þingflokki ríkisstjórnarinnar og það sem gerist er að það verður uppnám hjá almenningi, hjá þeim sem um málið eiga að véla, og uppnám hjá þeim sem eru að skoða stórfyrirtæki eins og Landsvirkjun og athuga lánshæfi þeirra.

Það verður svo að segja um þetta fyrirtæki að við þurfum skýringar á því sem sami ráðherra hæstv. tæpti hér á í gær, og svaraði ekki betur þó að hún væri þráspurð utan úr sal, að sameiningin við Rarik og Vestfirðinga mundi væntanlega bæta eiginfjárstöðuna. Við viljum fá skýringar á því.

Hvers vegna þarf að bæta eiginfjárstöðu Landsvirkjunar? Er það að koma í ljós sem haldið var fram hér fyrir ári eða tveimur að nýjustu framkvæmdir á vegum þessa fyrirtækis hafi verið fjárhagslega óheilbrigðar, að þær hafi veikt stöðu Landsvirkjunar til langframa? Vont er það. Því var haldið fram hér að þær hugleiðingar væru fullkomin della og kjaftæði og blaður úti í bæ. Nú þarf iðnaðarráðherrann og viðskiptaráðherrann að skýra fyrir okkur hvernig á því stendur að það þarf að bæta eiginfjárstöðu Landsvirkjunar.

Í tilefni nýlegra ályktana hér í bænum vil ég svo segja að það er kannski eins gott að við Reykvíkingar tökum til fótanna og hlaupum út úr þessu fyrirtæki eins og það virðist vera statt. Norðlendingar hafa ákveðið að gera það, m.a. bæjarfulltrúi VG á Akureyri og sennilega er það mjög skynsamlegt hjá Valgerði Bjarnadóttur að losa sig við alla ábyrgð á þessu fyrirtæki.