131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Lánshæfismat Landsvirkjunar.

[12:15]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það var verulegur skaði hvað þessi mál varðar að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og ég trúi því að hæstv. fjármálaráðherra hafi átt hlut að máli, skyldi bæta þessum yfirlýsingum við annars ágæta niðurstöðu sem var fólgin í því að leysa Reykvíkinga og Akureyringa út úr Landsvirkjun. Um það mál held ég að geti orðið nokkuð víðtæk samstaða. Það spillir því máli að menn skyldu blanda saman hugarórum um einkavæðingu Landsvirkjunar og sameiningu orkufyrirtækja í eigu ríkisins í eitt stórt fyrirtæki og eyðileggja þar með möguleikann á að búa til samkeppnisumhverfi á raforkumarkaðnum. Þetta er allt saman óskiljanlegt.

Ég átta mig ekki á því hvers konar umræður hafa farið fram í ríkisstjórninni um þetta en ég efast ekki um að þær hafi farið fram og niðurstaðan orðið þessi, að stefna að þessu og jafnvel að það verði hægt að láta fara að selja úr þessu stóra fyrirtæki eftir jafnvel þrjú ár. Það er algjörlega glórulaust að þetta sé möguleiki. Þeir sem það vilja þurfa a.m.k. að útskýra fyrir landsmönnum með hvaða hætti eigi að vera hægt að standa að þessu.

Allt er þetta tómt fljótræði. Ég held að framsóknarmenn gerðu best á fundi sínum sem hefst um þessa helgi með því að reka málið almennilega ofan í ráðherra sinn og snúa ofan af þeirri vitleysu sem þarna er komin í gang en standa við það sem er skynsamlega gert.