131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Lánshæfismat Landsvirkjunar.

[12:17]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Umræðan sem hér fer fram á fyllilega rétt á sér miðað við yfirlýsingarnar og miðað við umfjöllunina undanfarna daga og fréttaflutning. Það er sjálfsagt að við ræðum þetta mál ítarlega og sérstaklega yfirlýsingar um áform stjórnvalda. Ég undirstrika að hingað til höfum við bara heyrt um áform og það er ekki búið að taka neina ákvörðun um að einkavæða Landsvirkjun. Ég er satt best að segja ekki viss um að það eigi eftir að gerast. Ég er ekki sannfærð um að það ferli verði sem hér hefur verið lýst undanfarna daga miðað við viðbrögð ýmissa stjórnarliða og miðað við að engin yfirlýsing hafi komið frá ríkisstjórninni sem slíkri um þetta mál.

En ef það skyldi vera svo að ríkisstjórnin ætlaði að fara með það í alvarlega skoðun að einkavæða Landsvirkjun, einkavæða orkuframleiðslu og orkudreifingu og allt saman, þá bið ég um að menn skoði reynslu nágrannalandanna, ekki síst Noregs. Þar var þetta gert og endaði þannig að skammta þurfti rafmagn til almennings og breytingunum var ekki beinlínis fagnað í Noregi þegar svo var komið.

Við skulum a.m.k. reyna að læra af mistökum sem gerð hafa verið og skoða það sem gerst hefur annars staðar og taka þá reynslu með í umfjöllunina þegar við förum að ræða þetta mál í alvöru. Ég reikna náttúrlega með að það eigi eftir að koma aftur inn í þingið.