131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Uppsagnir hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.

514. mál
[12:35]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í fréttum hefur komið fram að mikil fækkun hefur orðið að undanförnu hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli. Þar hafa verið umtalsverðar uppsagnir og reyndar frekari breytingar í vændum. Þetta eru afleiðingar þess ófremdarástands að íslensk stjórnvöld neita að horfast í augu við veruleikann og breyttar aðstæður, berja höfðinu við steininn og leggja alla áherslu á að halda í fjórar óvopnaðar og gamlar orrustuþotur á meðan hvorki gengur né rekur í viðræðum við Bandaríkjamenn um málefni stöðvarinnar almennt. Þessi óvissa vofir yfir og enginn botn fæst í þá hluti. Á meðan fara Bandaríkjamenn sínu fram Þeir segja upp, skera niður, flytja burt tæki og tól á sínum forsendum og þetta bitnar núna, í þessu tilviki, á þjónustustiginu á Keflavíkurflugvelli sem er ákaflega bagalegt. Það er meira að segja svo komið að ýmsir aðilar, meðal annarra Félag íslenskra flugumferðarstjóra, hafa lýst yfir áhyggjum sínum af því að þessar ráðstafanir, þessi niðurskurður og þessi fækkun starfsmanna, sérstaklega í flugþjónustudeild slökkviliðsins, komi beinlínis niður á öryggi.

Guðjón Arngrímsson, varaformaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, upplýsir í viðtali við blað fyrir skemmstu að fækkun starfsmanna sé orðin sennilega af stærðargráðunni 17 manns, þ.e. fækkað hafi í slökkviliðinu úr 59 í 42, og Kjartan Halldórsson, flugumferðarstjóri á Keflavíkurflugvelli, upplýsir í viðtali við sama blað að uppsagnir í flugþjónustudeildinni hafi þegar leitt til þess að snjóhreinsun taki lengri tíma. Það leiðir svo til þess að erfiðara er að halda flugvellinum opnum sem geti leitt til kostnaðarsamra tafa á flugi. Það er skelfilegt ef þessi þjónusta skerðist enn frekar, segir hann.

Nú er ástæða til að ætla að það sé þó í vændum, bæði í formi enn frekari uppsagna starfsmanna og jafnvel breytinga á þessum rekstri og útboða á einhverjum hluta starfseminnar. Ég tel mikilvægt vegna hinna miklu hagsmuna sem við Íslendingar höfum af Keflavíkurflugvelli sem okkar alþjóðaflugvelli og vegna stöðu Keflavíkurflugvallar sem millilendinga- og varaflugvallar í flugi yfir Norður-Atlantshaf að þessi mál verði skýrð.

Ég hef því spurt hæstv. utanríkisráðherra sem þessi mál heyra undir vegna hinnar sérkennilegu skipunar mála á Keflavíkurflugvelli, að utanríkisráðherra fer þar með flest mál, hve mikil fækkunin sé orðin, hvaða áhrif þessi fækkun starfsmanna hafi haft eða komi til með að hafa á starfsemi flugþjónustudeildar og þjónustustig við brautir vallarins. Enn fremur spyr ég: Hvaða áhrif hefur fækkun starfsmanna haft eða kemur til með að hafa á öryggisstaðla og viðbragðsgetu slökkviliðsins og styrk varaslökkviliðs?

Að síðustu spyr ég: Stendur til að bjóða út einhverja þætti þessarar starfsemi? Hvernig á þá að tryggja að mannskapurinn sem kemur til með að sinna þessum störfum hafi tilskilin réttindi og þjálfun sem slökkviliðsmenn varðandi meðferð hættulegra efna og annað í þeim dúr?