131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Uppsagnir hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.

514. mál
[12:44]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það stingur óneitanlega í stúf að uppsagnir séu fram undan hjá slökkviliðsmönnum á Keflavíkurflugvelli og jafnvel í tugatali á sama tíma og raddir heyrast um að umsvif í Flugstöð Leifs Eiríkssonar muni tvöfaldast á næstu 10 árum. Það hefur komið fram eins og allir vita að varnarliðið hefur borgað brúsann undanfarin ár eða frá upphafi vega er varðar slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli en ég tek undir orð hv. þm. Hjálmars Árnasonar um að ríkið skoði sinn hlut vegna breyttra aðstæðna sem fram undan eru í þessum efnum. Tvöföldun á umsvifum og ferðum á Keflavíkurflugvelli kallar óneitanlega á þessa þjónustu áfram á Keflavíkurflugvelli. Því er líka fyllilega vert að skoða aðra möguleika sem ég hef sjálfur í ræðustól borið undir iðnaðarráðherra á undanförnum dögum. Ég væri afar spenntur að heyra skoðun hæstv. utanríkisráðherra á því hvort til greina komi að utanríkisráðuneytið leiti samráðs við varnarliðinu um nýtingu mannvirkja á Keflavíkurflugvelli á næstu missirum.