131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Uppsagnir hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.

514. mál
[12:52]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er fróðlegt að heyra að hv. þingmaður sem síðast talaði hefur mest verið að hugsa um atvinnuöryggi starfsmanna á Keflavíkurflugvelli og væntanlega þegar hann hefur verið að spássera í Keflavíkurgöngunni forðum tíð hefur þetta jafnan verið efst í huga hans. Það er mjög merkilegt að heyra það og annar göngufélagi sem þarna hefur sjálfsagt líka haft það í huga og verður mjög órólegur þegar þetta er nefnt af einhverjum ástæðum.

En vegna þess sem hér var sagt og rætt að við værum að taka eingöngu gildar fullyrðingar talsmanna varnarliðsins í þessum efnum er það auðvitað ekki rétt. Auðvitað látum við skoða málin sérstaklega hvað þetta varðar og höfum hér, dagsett 21. febrúar, yfirlýsingar Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og yfirmanna flugvallarsviðsins þar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrirliggjandi upplýsingar um starfsmannafjölda og tækjakost flugþjónustudeildarinnar vegna vetrarviðhaldsáætlunar og yfirlýsingar varnarliðsins um að ekki verði slakað á kröfum benda til þess að deildin sé vel yfir þeim lágmarkskröfum samkvæmt handbókinni, sérstaklega með tilliti til tækjakosta deildarinnar.“

Ég les ekki allt skjalið en auðvitað er þetta skoðað í heild.

Vegna þess sem nefnt var að frá 1990 hefði orðið tiltekin fækkun bæði bandarískra hermanna og starfsmanna gert einhliða af hálfu Bandaríkjamanna er það auðvitað þannig að íslensk yfirvöld, sama hver hefur setið í stóli utanríkisráðherra á þeim tíma, hafa ekki gert athugasemdir við að fækkun og breytingar yrðu á varnarstöðinni í Keflavík eftir lok kalda stríðsins. Það væri algerlega óraunhæft að taka ekki tillit til þess og meta þau mál af sanngirni. Við höfum hins vegar sagt: Það verður að vera tiltekinn ásættanlegur varnarviðbúnaður í stöðinni í Keflavík meðan varnarsamningurinn er í gildi, annars er ekki um raunverulegan varnarsamning að ræða. Þetta er afstaðan. Við höfum aldrei krafist þess að hér væri jafnmikil starfsemi og var á meðan kalda stríðið stóð sem hæst. Það væri algerlega út í bláinn af okkar hálfu að gera það.