131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Stuðningur við börn flutningsskyldra starfsmanna.

518. mál
[12:57]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég svara þeim spurningum beint sem hv. þingmaður beindi til mín og ég þakka fyrir vil ég nefna að auðvitað býr fjöldi annarra aðila en flutningsskyldir starfsmenn í utanríkisþjónustunni við sömu aðstæður. Það hefur löngum verið svo að gríðarlegur fjöldi námsfólks sem stundar hvers konar framhaldsnám erlendis er þar einmitt með börn sín á viðkvæmasta aldri sem gefur auga leið vegna þess á hvaða aldri námsmennirnir eru sem stunda framhaldsnámið. Það lendir í þessu sama, að rífa börn sín upp úr öðru umhverfi, öðrum tungumálum, öðrum vinahópum o.s.frv. Þetta á því ekki eingöngu við um flutningsskylda starfsmenn utanríkisráðuneytisins, við skulum hafa það í huga.

En vegna spurninganna sem hv. þingmaður beindi sérstaklega til mín vil ég svara þeim. Fyrri spurningin er svolátandi: „Hvernig er háttað stuðningi við börn flutningsskyldra starfsmanna í utanríkisþjónustunni við heimkomu eftir búsetu erlendis, t.d. hvað varðar skólagöngu og félagslega aðlögun?“

Svar við spurningunni er þetta: Í fyrirmæla- og leiðbeiningarbók utanríkisþjónustunnar, gr. 5.3.15, segir að ráðuneytið skuli, með leyfi forseta:

„Veita styrk vegna stuðningskennslu á Íslandi fyrir börn sem flytja búferlum til Íslands vegna flutnings foreldris í starfi.“

Ráðuneytið hefur túlkað greinina rúmt og leitast við að koma til móts við þarfir barna flutningsskyldra starfsmanna við heimflutning, m.a. með því að greiða sérstaklega fyrir stuðningskennslu vegna þessara barna.

Þá er spurt um það hvort starfandi sé sérstakur fjölskylduráðgjafi í utanríkisráðuneytinu og ef svo sé ekki hvort ráðherra muni beita sér fyrir að svo verði til stofnað. Svarið við því er að til þessa hefur enginn sérstakur fjölskylduráðgjafi verið starfandi í ráðuneytinu. Hins vegar hefur ráðuneytið gert sérstakan samning við sálfræðing sem er kallaður til þegar upp koma vandamál á sérsviði hans, en það er sérstaklega gert ráð fyrir að viðkomandi aðili komi að málum sem varða einelti og aðra áreitni en hann getur líka veitt aðstoð í öðrum málum sem upp koma. Ráðuneytið hefur einnig mótað sérstaka fjölskyldustefnu utanríkisþjónustunnar sem hefur það sem markmið að bregðast við áhrifum sem starf á vegum þjónustunnar hefur á fjölskyldu starfsmanna.

Vegna síðari liðar spurningarinnar finnst mér sjálfsagt að athuga hvort þessum málum megi koma betur fyrir, m.a. með þeirri hugmynd sem hv. þingmaður varpar fram.