131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Stuðningur við börn flutningsskyldra starfsmanna.

518. mál
[12:59]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér datt í hug að koma með eina stutta ábendingu, að tæknin hefur sem betur fer gert það að verkum að þessi mál eru hugsanlega ekki alveg jafnslæm og þau voru fyrir örfáum árum. Við sjáum mjög miklar framfarir hvað varðar notkun á netinu, bæði með að senda sjónvarpsefni en líka texta og annað og mér datt í hug þegar ég hlustaði á umræðuna að það væri kannski sök sér fyrir íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir því að einmitt sjá til þess að barnaefni, sjónvarpsefni, fræðsluefni og jafnvel kennsluefni væri dreift út á netið til að Íslendingar búsettir erlendis gætu nálgast það fyrir börn sín, til að mynda þau sem starfa á vegum íslenskra stjórnvalda í erlendum ríkjum en einnig fyrir íslenska námsmenn og aðra Íslendingar sem eru búsettir erlendis. Þarna held ég að séu miklir möguleikar og jafnvel mikil eftirspurn og þörf. Þetta væri kannski þarft mál að hugleiða.

Þetta var bara stutt athugasemd.