131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Samstarf við Rauða kross Íslands um móttöku flóttamannahópa.

373. mál
[13:11]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að ræða þetta mál. Þessa dagana eru um tíu ár síðan tillögur nefndar sem Bragi Guðbrandsson veitti forstöðu sáu dagsins ljós m.a. um flóttamannaráð og að við tækjum árlega við 30 flóttamönnum. Síðari hlutinn var nú ekki samþykktur, þannig að það hefur verið, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi, svolítið gloppótt hvað við höfum tekið á móti flóttamönnum.

Hins vegar er alveg ljóst að það hefur mælst vel fyrir hjá Íslendingum að við Íslendingar eigum hlutdeild í að gefa flóttafólki nýtt heimili og nýtt líf. Þess vegna eigum við að stefna að því að gera þetta árlega. Það er ágætt að gera úttekt á hvernig fólki hefur reitt af en það er mjög mikilvægt að loka ekki á aðkomu flóttafólks á meðan.

Ég les svör ráðherra þannig að ekki sé kannski beinlínis búist við stefnubreytingu og ef svo er, þá er ég ánægð ef við höldum áfram að sinna þessum skyldum.