131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Riðusmit og varnaraðgerðir gegn riðu.

461. mál
[13:19]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hvaða aðferðir eru notaðar til að koma í veg fyrir endurtekið riðusmit?

Endurtekið riðusmit má kalla það þegar veikin kemur aftur og aftur upp á sama svæði, á einum bæ eftir annan, en einnig það þegar veikin kemur aftur í ljós á bæjum þar sem öllu fé hefur verið fargað, sótthreinsað og byrjað með ósýkt fé eftir fjárleysi.

Engin örugg aðferð er til að greina riðuveiki í lifandi fé, engin slík aðferð er þekkt. Skoða verður heilasýni úr dauðum skepnum. Vitað er að riðuveiki er lengi að búa um sig og þegar hún loksins er greind eru oftast fleiri kindur smitaðar en þær sem sýnilega eru veikar. Í sumum tilfellum hefur smitefni fundist í allt að þriðjungi kinda sem fargað er „heilbrigðum“, þ.e. án þess að þær sýni nokkur merki um veikindi á bæjum þar sem riða kemur upp. Veikin getur því óhindrað dreifst til nýrra staða ef ekki er leitað skipulega að henni með töku heilasýna úr heilbrigðu sláturfé. Mjög mikilvægt er að geta leitað að veikinni í sjálfdauðu fé og kindum sem lógað er vegna þess að þær sýna merki um vanþrif og eru veikar.

Sýni úr þessum hópi skila sér því miður illa til rannsóknar. Margt af þessu fé er grafið án skoðunar. Þetta er e.t.v. meginástæða þess hve erfitt er að hreinsa sýktu svæðin af smitinu. Leitast er við að hraða samningum við eigendur sýktra hjarða um bætur á framkvæmd hreinsunaraðgerða og farga hjörðum þar sem veikin hefur greinst eins fljótt og auðið er. Öll gripahús eru tæmd og haugur grafinn með hræjunum, slitnar innréttingar fjarlægðar og þeim eytt, öllum heyjum frá riðutíma og eldri fyrningum eytt, hús og heygeymslur eru sótthreinsaðar rækilega með tveimur mismunandi sótthreinsiefnum og mauraeitri og yfirborði síðan lokað, tré með fúavarnarefni en steini og járni með kraftmikilli málningu. Jarðvegsskipti eru gerð umhverfis fjárhúsin.

Hv. þingmaður spyr: „Eru uppi hugmyndir um að endurskoða núverandi aðferðir við förgun og forvarnir?“

Núverandi aðferðir við riðuvarnir byggja á þeirri stefnu að farga eins fljótt og unnt er fjárhjörðum þar sem veikinnar verður vart. Einnig að farga öllu fé á heilum svæðum þar sem veikin hefur náð að breiðast út og líkur eru til að fé sé smitað á mun fleiri bæjum en greinst hafa. Með þessari aðferð virðist hafa tekist að uppræta riðuveiki úr 12 varnarhólfum af 24 sem sýkt voru þegar aðgerðir hófust 1978 og síðan hertar 1986. Veikin hefur komið upp aftur á aðeins 6% þeirra bæja sem byrjað hafa fjárbúskap á ný eftir niðurskurð.

Þrátt fyrir þennan augljósa árangur er ástæða til að endurmeta þær baráttuaðferðir sem notaðar hafa verið síðustu tæp 30 ár í ljósi fenginnar reynslu og nýrrar þekkingar á þessu sviði. Ég hef því ákveðið að slíkt starf skuli hafið og mun skipa starfshóp í það verkefni á næstu dögum.

Hvað er vitað um riðuveiruna, getur hún varðveist í jörð?

Sýkt heilasýni hafa verið grafin í jörðu í tilraunaskyni. Eftir þrjú ár voru þau rannsökuð á ný. Smitkrafturinn hafði þá dofnað nokkuð en hvarf ekki. Smitefnið virðist því geta lifað lengur en þrjú ár í jörðu, ekki er vitað með vissu hve miklu lengur. Reynsla hér á landi sýnir að riðuveiki getur komið upp aftur á þeim stað í nýju og heilbrigðu fé eftir langt fjárleysi án þess að hægt sé að finna eða benda á nýja smitleið til staðarins. Veikin virðist því með einhverjum hætti geta geymst á sama staðnum árum saman, einkum þar sem hún hefur náð að magnast. Nokkur dæmi eru um lengri tíma en tíu ár, jafnvel allt að 20 árum.

Síðast er spurt hvort komið hafi til álita að brenna hræ og hey.

Oft hefur verið rætt um að brenna hræ þar sem riðuveiki hefur komið upp. Það er seinlegt verk og dýrt og hefur hvað eftir annað verið horfið frá því vegna kostnaðar. Heyjum hefur stundum verið brennt og sömuleiðis brennanlegum innréttingum úr gripahúsum en tregða er að fá leyfi til slíks vegna reykmengunar. Að sjálfsögðu væri æskilegra að geta eytt hræjum, heyi og innréttingum með brennslu en að grafa þau. (Forseti hringir.) Áformað er að gera kostnaðaráætlun vegna kaupa og reksturs á færanlegum samstæðum sem nota mætti til þess að eyða slíkum úrgangi við háan hita og lágmarksumhverfismengun. (Forseti hringir.)