131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Riðusmit og varnaraðgerðir gegn riðu.

461. mál
[13:26]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta er mjög þarft og stórt mál sem hér er rætt, um riðu. Ég tek undir þau stefnumið sem eru að markmiðið sé að uppræta riðu í íslensku sauðfé. Þá skiptir líka miklu máli að vera með mjög strangar reglur um innflutning á landbúnaðarvörum, kjötvörum og öðru slíku til þess að riðan berist ekki hingað til lands eða aðrir sjúkdómar því að þetta er þekkt í hjörðum erlendis.

Ég vil því spyrja ráðherra hvort ekki sé enn tryggt að ekki verði slakað á í innflutningi á kjötvörum til landsins þannig að smithættan aukist ekki með því. Við höfum undanþágu frá samningi við Evrópusambandið um að undanskilja landbúnaðarvörur frjálsum innflutningi.

Enn fremur hvort ráðherrann muni ekki beita sér fyrir að skoða flutning á sláturfé á milli hólfa (Forseti hringir.) þannig að þau hólf, þau svæði sem eru frí af riðunni verði það örugglega áfram og engin áhætta tekin þar af opinberri hálfu.