131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Riðusmit og varnaraðgerðir gegn riðu.

461. mál
[13:28]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst full ástæða til þess að umræður um þessi mál fari fram og ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli hafa tekið ákvörðun um að setja þessi mál núna í skoðun. Það er örugglega full ástæða til að gera það, það er búið að vera ákveðið andvaraleysi undanfarin ár. Riðusmit hefur farið á milli landshluta nokkuð örugglega vegna þess að menn hafa sýnt gáleysi. Það er líka vegna ákvarðana stjórnvalda hvað varðar sláturhús, það virðist vera farinn af stað flutningur sláturfjár sem ekki getur gengið til framtíðar. Menn verða að horfast í augu við það að ef þeir ætla að vernda þau svæði þar sem ekki er riða og þar sem náðst hefur árangur í að losna við hana þá verða menn að stýra flutningi sláturfjár þannig að ekki sé verið að flytja smitefni á milli hólfanna. Það er veruleg hætta á því með því fyrirkomulagi sem komið er upp núna.