131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Riðusmit og varnaraðgerðir gegn riðu.

461. mál
[13:29]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé mjög brýnt að við tökum ítarlega og vandaða umræðu um það hvernig við ætlum að verjast gegn riðunni og hvernig við hreinlega ætlum að útrýma henni úr landinu. Þetta er það hættulegur sjúkdómur, það alvarlegur og skaðlegur sjúkdómur að við verðum að losna við hann. Við verðum hreinlega að losa okkur við þessa óværu í landinu.

Ég á sæti í landbúnaðarnefnd og þar áttum við í þessari viku mjög góðar viðræður við fulltrúa Bændasamtakanna, yfirdýralækni og fulltrúa frá landbúnaðarráðuneytinu. Ég vona svo sannarlega að þær umræður og umræðan sem fór fram í þinginu fyrr í þessari viku verði upphafið að nýrri sókn gegn þessum vágesti og leiði til þess að við hugsum hlutina svolítið upp á nýtt og ákveðum í eitt skipti fyrir öll að nú skuli þessi óvættur hrakinn héðan. Hann hefur fengið að geisa allt of lengi og mál er að linni.