131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Riðusmit og varnaraðgerðir gegn riðu.

461. mál
[13:31]

Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Hér fer fram mikil umræða um riðu eins og fram fór í landbúnaðarnefnd í gær þar sem við fórum yfir þessi mál með yfirdýralækni, fulltrúum Bændasamtakanna og fleirum. Þar kom fram að riða hefði borist með dönskum hrút hingað til lands fyrir um það bil 100 árum og síðan höfum við verið að berjast við þennan vágest.

Ég vil taka fram að mjög vel hefur verið unnið að þessum málum af hálfu yfirdýralæknisembættisins alla tíð. Það hefur verið skorið mjög mikið niður af fjárstofnum. Einnig kom fram að þetta er aðeins í fullorðnum ám og það er líka athyglisvert að bændur setja ekki fullorðnar ær í sláturhús heldur grafa þær jafnvel heima vegna þess hversu lítið fæst fyrir kjötið.

Ég vil taka undir með þeim sem hafa rætt um varnargirðingarnar. Þær eru ekki virtar af þeim sem ferðast um landið og mikið vantar upp á að frætt sé um hvað þetta skiptir miklu máli og að ekki sé farið yfir varnargirðingar með hey og annað.