131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Riðusmit og varnaraðgerðir gegn riðu.

461. mál
[13:32]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka eins og aðrir þessa umræðu og eins það að hæstv. landbúnaðarráðherra sé búinn að skipa nefnd til að fara vel yfir þessi mál. Það sem gerir okkur erfitt fyrir og hefur gert alla tíð er að smitleiðir eru ekki þekktar og ekki hvernig smitefnið hagar sér, þannig að það gerir okkur erfiðara fyrir. Samt þekkjum við ýmsar smitleiðir sem við höfum núna undanfarið ekki tekið nægilega vel á. Það er t.d. flutningur á milli hólfa, urðun sláturúrgangs og varnargirðingar. Þetta eru þættir sem við vitum að eru ekki í nógu góðu lagi. Það kostar aftur á móti fjármuni að koma þessu í lag og ef við viljum vernda íslenska stofninn og halda riðu í skefjum verðum við að leggja út í þennan kostnað.