131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Riðusmit og varnaraðgerðir gegn riðu.

461. mál
[13:34]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Það er ekki að furða þótt margir vilji gera athugasemd því að eins og fram kom í fyrri ræðu minni áðan er um að ræða mjög mikið mál og mjög kostnaðarsamt fyrir ríkið og einstaklingana auk þess sem það veldur miklum hörmungum í lífi bænda sem fyrir þessu verða.

Auðheyrt var á fundi landbúnaðarnefndar í gær að þeim mönnum sem þar mættu var alls ekki rótt vegna flutninga farartækja sem fara á milli sýktra og ósýktra svæða með sláturfé í sláturtíðinni.

Athyglisvert var að heyra í svari hæstv. landbúnaðarráðherra að ekki eru brennd hræ og hey vegna kostnaðar og reykmengunar. En í þessu tilfelli erum við að tala um val á milli reykmengunar annars vegar og svo jarðvegsmengunar hins vegar sem sýnt er og sannað að getur orðið til endurtekins smits.

Fróðlegt verður að sjá nýjar tillögur frá hæstv. ráðherra og ég vænti þess að þær muni fela í sér leiðir til varnar þeirri hættu sem skapast vegna nýrra aðstæðna í landbúnaði þar sem menn eru að samnýta og eiga saman tæki til jarðyrkju og landbúnaðar og þar með er komin hætta á að smit flytjist á milli bæja með þeim tækjum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið.