131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Endurheimt votlendis.

532. mál
[13:59]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Nefndin var skipuð af þáverandi landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra, Guðmundi Bjarnasyni. Frumkvæðið kom frá áhugamönnum og þá fyrst og fremst Fuglaverndarfélagi Íslands. Upprunalega var hlutverk hennar að gera tillögur um hvar og hvernig megi gera tilraunir með að endurheimta hluta þess votlendis sem þurrkað hefur verið upp með framræslu, með því að stífla eða fylla upp í skurði þannig að vatnabúskapur komist í sem næst upprunalegt horf. Hestmýri í Borgarfirði var endurheimt og fyllt þar upp í skurði. Hafnar voru rannsóknir á lífríki og fylgst með vatnabúskapnum, og er það enn gert. Þetta verkefni kenndi mikið. Lítill skilningur var á endurheimt til að byrja með, jafnvel talin della ein. Dýrt var að fylla upp í skurði og rannsóknir kostnaðarsamar. Segja má að með þessu hafi nefndin að nokkru leyti lokið upphaflegu ætlunarverki.

Ljóst var hins vegar að mikið verk var að vinna á þessum vettvangi og má þar nefna að vinna trúnað fólks, reyna mismunandi aðferðir við endurheimt og síðast en ekki síst móta reglur um endurheimt votlendis. Þær voru engar til, hvorki hvað eyðingu votlendis varðar né heldur hvernig meta skyldi endurheimt þess. Í samráði við ráðherra var því ákveðið að nefndarstarfið héldi áfram en í breyttu formi. Hafin var hvers konar undirbúningsvinna vegna endurheimtar votlendis. Í ljósi þessa hóf nefndin kynningarstarf, gaf út bækling, opnaði heimasíðu, stóð fyrir kynningarfundum og heimsótti fjölda aðila sem sýndu endurheimt votlendis áhuga. Þá studdi nefndin það sjónarmið að hver sem raskar votlendi þurfi að endurheimta annað á móti og vann slíkar reglur þar að lútandi í samráði við Umhverfisstofnun. Eru þessar reglur þær fyrstu sinnar tegundar á Íslandi.

Lögð var áhersla á gott samstarf við alla hlutaðeigendur. Mikið og gott samstarf þróaðist milli nefndarinnar og Vegagerðarinnar, og einn nefndarmanna hefur verið Vegagerðinni til aðstoðar og ráðgjafar um úttekt og mat á endurheimt þeirra svæða sem endurheimt hafa verið vegna framkvæmda. Þá var nefndin kölluð til vegna endurheimtar votlendis vegna sorpurðunar á Vesturlandi. Nefndin hefur einnig haft forgöngu um og styrkt framkvæmdir á mörgum jörðum einstaklinga. Árangur þess er sífellt að skila sér, fordómar hafa vikið, æ fleiri spyrjast fyrir um endurheimt votlendis og bjóða svæði til endurheimtar. Til er vísir að gagnabanka um slík svæði sem framkvæmdaraðilar gætu nýtt sér. Í þessa veru hefur votlendisnefnd unnið, starfar enn og mun starfa meðan ég verð landbúnaðarráðherra. Nefndin er að vinna að ítarlegri skýrslu um verk sín sem ætlunin er að gefa út fyrir vorið.

Hvað aðra fyrirspurn varðar er erfitt að greina á milli. Votlendisnefnd hefur átt hvað stærstan hlut í að fá framkvæmdaraðila til að endurheimta votlendi á móti því sem raskað hefur verið. Þá hefur nefndin verið kölluð til af hálfu framkvæmdaraðila til að meta svæði sem á að raska og mótvægisaðgerðir. Má tiltaka endurheimt Kolviðarnesvatns á sunnanverðu Snæfellsnesi sem var mótvægisaðgerð vegna framkvæmda á Vatnaleiðinni á Snæfellsnesi, endurheimt votlendis í Lýtingsstaðahreppi vegna framkvæmda við Þverárfjallsveg og endurheimt votlendis á framengjum við Mývatn vegna framkvæmda á Háreksstaðaleið. Einnig var nefndin kölluð til vegna endurheimtar votlendis vegna sorpurðunarinnar á Vesturlandi. Í reynd eru þetta fyrstu verkefni sinnar tegundar hér á landi og eru stefnumótandi.

Að hvaða verkum hefur svo nefndin komið á stórum svæðum? Ég vil nefna Hestmýri í Borgarfirði, Dagmálatjörn í Biskupstungum, Kolavatn í Holtum, Lútandavatn í Flóa, Gauksmýrartjörn í Miðfirði, Villingaholtsvatn í Flóa, Líkatjörn í Staðarsveit á Snæfellsnesi, Vallanes á Fljótsdalshéraði og Hrollaugsstaðablá í Hjaltastaðaþinghá svo að einhver stór svæði séu nefnd til að vernda kannski vötn sem voru að falla fram og hverfa. Mismunandi aðferðum hefur verið beitt.

Hversu miklu fjármagni hefur verið varið til þessa verkefnis? Það eru tæpar 4,5 millj. kr. sem fara til votlendisstarfsins, nefndarinnar, kynningar og funda, framkvæmda og styrkja. Þar af hefur 2,1 millj. verið varið til beinna framkvæmda og styrkja.

Nú eru áform um að auka þetta starf, er svar við fjórðu spurningunni. Ég tel mikilvægt að auka þetta starf og efla það, hef gert og geri tillögur um að til þess verði veitt meira fjármagn, heiti á fjárlaganefnd og Alþingi að styðja þetta mikilvæga verkefni, endurheimt votlendis og björgun á stórum stöðuvötnum sem sum væru kannski horfin ef þessi nefnd hefði ekki sýnt þetta öfluga starf.