131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Endurheimt votlendis.

532. mál
[14:06]

Helgi Hjörvar (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir svörin og hvet hann til þess að beita sér fyrir því að auka og efla rannsóknir Landbúnaðarháskóla Íslands á loftmengun sem leiðir af framræstu landi og opnum skurðum en þær upplýsingar, sem nýlega komu fram, hljótum við að taka mjög alvarlega. Þeir fjármunir sem varið er í endurheimt votlendis, 2,1 milljón, með fullri virðingu fyrir viðleitninni, eru auðvitað smáaurar. Ég hvet hæstv. landbúnaðarráðherra til þess að beita sér fyrir endurskoðun á landgræðslu- og skógræktarstarfi okkar í tengslum við votlendisendurheimtina, forgangsröðun í þessari vinnu okkar með landið, og setja upp langtímaáætlun um það hvernig vinna eigi með myndarlegum hætti að endurheimt votlendis. Um leið spyr ég hæstv. ráðherra hversu umfangsmikið þetta verkefni er og hversu langir þeir skurðir eru sem grafnir hafa verið í landið og standa þar opnir.