131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Endurheimt votlendis.

532. mál
[14:10]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Endurheimt votlendis er mikilvægt mál. Ég hygg að menn hafi farið offari hér á árum áður við að ræsa fram mýrar og votlendi og kannski farið þar fram meira af vanþekkingu, þeir hafi í raun og veru ekki gert sér grein fyrir hvaða tjón þeir væru að vinna. Í dag vitum við miklu meira um þessi vistkerfi í náttúru Íslands sem skipta að mínu viti mjög miklu máli, m.a. fyrir vini okkar mófuglana og vatnafuglana sem eru okkur til ánægju og yndisauka yfir sumartímann og fyrir okkur sem erum að uppgötva nýja stóriðju sem gengur út á það að selja Ísland sem ferðamannaland. Ég fagna því, þó að upphæðirnar mættu svo sannarlega vera hærri, að verið sé að vinna að þessum málum og vil bara nota tækifærið til að hvetja okkur öll, til að brýna okkur enn frekar til þess að moka ofan í skurðina og sjá til þess að þessi vistkerfi verði aftur endurheimt í náttúru landsins.