131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

519. mál
[14:23]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur beint til mín nokkrum spurningum um Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður:

„Hversu mikið fjármagn er til ráðstöfunar á þessu ári til viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands?“

Á árinu 2005 eru 379 millj. kr. til ráðstöfunar. Eins og kunnugt er hófust framkvæmdir formlega í nóvember 2004 og gert er ráð fyrir að framkvæmdir verði rúmlega hálfnaðar í árslok 2005. Áætlaður heildarkostnaður við verkið er 815 millj. kr. og búist við að viðbyggingin verði tilbúin til notkunar 1. febrúar 2007.

Svo sem kunnugt er hefur ráðuneytið átt í viðræðum við nokkur sveitarfélög um hlut þeirra í kostnaði við hjúkrunarrými og samkomulag að útkljá það mál með gerðardómi. Þrátt fyrir að endanleg niðurstaða í þeim þætti sé enn ekki ljós verður að telja að fjármagn að öðru leyti sé tryggt til framkvæmdanna.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessar upplýsingar svari spurningum hv. þingmanns.