131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

519. mál
[14:27]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hygg að ég taki ekki of djúpt í árinni þegar ég fullyrði að dvalarheimilismál aldraðra á Selfossi hafa lengi verið algerlega óviðunandi. Mér er það enn í fersku minni þegar ég kom í heimsókn með þingmannahópi Suðurkjördæmis á Ljósheima á Selfossi, í október árið 2003 að ég hygg. Ég verð að segja að ég minnist þeirrar heimsóknar enn þann dag í dag með vægum hrolli því að aðstaðan var gersamlega ófullnægjandi. Það er löngu tímabært að þarna verði bætt úr og það með myndarlegum hætti.

Það var á vissan hátt ágætt að heyra hæstv. ráðherra segja að fjármunir til framkvæmda við Heilbrigðisstofnun Suðurlands væru tryggðir og að hann sæi ekki betur en að hægt yrði að ljúka við verkið 1. febrúar 2007. Við skulum rétt vona að það verði að veruleika.