131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Húsnæðismál Landspítala -- háskólasjúkrahúss.

523. mál
[14:43]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir þau orð hæstv. ráðherra að þjóðin sé einhuga um að hafa öflugan og sterkan landspítala, Landspítala – háskólasjúkrahús. Þá veltir maður fyrir sér í ljósi orða hæstv. ráðherra hvers vegna heilu stofurnar nú séu jafnvel lokaðar vegna rekstrarfjárskorts. Hvers vegna standa heilu álmurnar í sjúkrahúsum, hvort sem er á Suðurlandi eða Akureyri, ónotaðar vegna rekstrarfjárskorts? Ef okkur er svona annt um — sem ég tel mig vita að okkur sé — öflug sjúkrahús og mikla möguleika á að sinna þar störfum hljótum við að hugsa fyrst til þessa. Það er a.m.k. mitt mat.

Þá er ég einnig að velta fyrir mér, herra forseti, af hverju Landspítalinn sé skikkaður til að taka af rekstrarfé sínu, að mig minnir, til að fara út í skipulags- og undirbúningsvinnu að nýju sjúkrahúsi sem ekki hefur verið samþykkt á fjárlögum. Mér vitanlega er ekki komin nein heimild til að starta þessari vinnu á fjárlögum. Ég legg áherslu á að menn flýti sér hægt og manni þá fyrst það sem er fyrir hendi með sómasamlegum hætti eins og á Landspítalanum.