131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Grunnnet fjarskipta.

531. mál
[14:54]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. „Hver er afstaða ráðherra til hugmynda um að aðilar sameinist um rekstur eins öflugs grunnnets fjarskipta og gagnaflutninga fyrir landið allt?“ Svo spyr hv. þingmaður.

Hagkvæmnissjónarmið, aðstæður á markaði og takmarkanir sem fjarskipta- og samkeppnislög setja aðilum á fjarskiptamarkaði ræður að sjálfsögðu athöfnum og ákvörðunum þeirra í þessum efnum. Ekki alls fyrir löngu fól ráðuneytið Póst- og fjarskiptastofnun það verkefni að reyna að koma á samstarfi milli aðila markaðarins um uppbyggingu eins dreifikerfis fyrir stafrænt sjónvarp á grunnneti fjarskiptafyrirtækjanna.

Skemmst er frá því að segja, og svarar það kannski fyrirspurn hv. þingmanns, að tilraun Póst- og fjarskiptastofnunar í þá veru bar ekki árangur þar sem aðilar á markaði töldu slíkt samstarf ekki þjóna hagsmunum sínum. Það var sannreynt að hagkvæmnisrök varðandi sameiginlegar uppbyggingar fjarskiptakerfa féllu einfaldlega ekki að ólíkum hagsmunum allra aðila á þessum markaði. Krafa eins fjarskiptafyrirtækis nú um að svokallað grunnnet verði ekki selt er því ótrúverðug og mjög í ætt við aðgerðir sömu aðila gegn fjölmiðlalöggjöfinni á sínum tíma. Heilsíðuauglýsingar fyrirtækis eru stjórnendum þess til minnkunar að mínu mati.

Sama má segja um framgöngu Orkuveitu Reykjavíkur við uppbyggingu fjarskiptanets. Ekkert bendir til þess að á þeim bæ hugsi menn sér til samstarfs um eitt eða neitt. Á þeirri framgöngu bera m.a. borgarfulltrúar R-listans ábyrgð sem hv. þingmaður ætti að hafa bærilegan aðgang að í gegnum Vinstri græna.

Afstaða ráðherra er óbreytt hvað varðar sölu Landssímans hf. í einu lagi. Eftirfarandi rök liggja að baki þeirri aðstöðu: Hugmyndir um aðskilnað nets og þjónustu eru ekki nýjar af nálinni. Síðustu áratugi hafa þessar hugmyndir verið skoðaðar á meginlandi Evrópu þegar símamálastofnanir þar hafa verið einkavæddar. Hvergi hefur þessi leið verið farin á meginlandi Evrópu, og reyndar ekki vitað til þess að þessi leið hafi verið valin nokkurs staðar í heiminum. Í Evrópu og víðar annars staðar hefur traust lagaumhverfi, öflug samkeppni og virkt eftirlit tryggt eðlilegt markaðsumhverfi, m.a. hvað varðar aðgang að netum. Löggjöf, eftirlit og samkeppni hér á landi gengur ekki skemur í að tryggja eðlilegt markaðsumhverfi en annars staðar í Evrópu. Vil ég benda á eftirfarandi atriði máli mínu til stuðnings:

Í VII. kafla fjarskiptalaga nr. 81/2003 eru ákvæði sem tryggja aðgang að grunnneti Símans og hefur Póst- og fjarskiptastofnun eftirlit með því að ákvæði laganna séu virt. Síminn er í dag síður en svo laus við samkeppni. Orkuveitan, áður Lína.Net, og Fjarskipti og Fjarki hafa séð sér hag í því að leggja eigin ljósleiðarakerfi í samkeppni við Símann. Vegna þessa er ljóst að fyrirtæki á fjarskiptamarkaði hafa í dag enga tryggingu fyrir stöðu sinni og breytir eignarhald ríkisins á svokölluðu grunnneti engu þar um. Grunnnet í eigu Símans hf. mun eiga, og á, í samkeppni við fjarskiptanet annarra fjarskiptafyrirtækja. Það liggur fyrir.

Einnig er rétt að huga að því að ef reka ætti grunnlínunetið á öðrum forsendum en arðsemissjónarmiðum og veita ætti til þess fé úr ríkissjóði væri það aðgerð sem sennilega fæli í sér brot á samkeppnislögum í ljósi þess að þegar reka önnur fyrirtæki fjarskiptanet á þessu sviði.

Ekki má heldur líta fram hjá þeirri miklu þróun í fjölmiðlum og fjarskipta- og upplýsingatækni sem átt hefur sér stað hér á landi. Þeir sem harðast berjast gegn sölu Landssímans í heilu lagi bera við miklum kostnaði við uppbyggingu annarra kerfa. Það er ljóst að uppbygging fleiri kerfa er kostnaðarsamari en ef um eitt sameiginlegt kerfi væri að ræða. Það er jafnframt ljóst að samkeppni í netum leiðir almennt til lægra verðs og meira öryggis fyrir neytendur. En við því verður ekkert gert frekar, ekki frekar en að hægt er að hindra að fleiri bensínstöðvar rísi í Borgarnesi. Rétt er að benda á að aukinn kostnaður fellur einungis til við uppbyggingu annarra kerfa. Hafa ber í huga að hægt er að flytja símtöl eftir mismunandi kerfum, þ.e. á ATM, milli svæðisstöðva, gegnum ljósleiðara o.s.frv.

Þá vil ég benda á að OECD hefur gert grein fyrir því í skýrslu sinni að miklir gallar séu við að aðskilja grunnnet frá öðrum rekstri fjarskiptafyrirtækja. Er m.a. bent á að aðskilnaður sé áhættusamur, ávinningurinn takmarkaður, mjög óviss og getgátukenndur.

Markmið íslenskra stjórnvalda með sölu á hlut í Símanum er skýrt, þ.e. að auka samkeppni á fjarskiptamarkaði. Ég hef ástæðu til að ætla að sérfræðingar OECD og prófessor við Háskóla Íslands sem fjallaði um þetta fyrir einkavæðingarnefnd á sínum tíma séu betri ráðgjafar í þessum efnum en hv. þm. Jón Bjarnason, með fullri virðingu fyrir þekkingu hans, hvað þá stjórnendur símafyrirtækja sem ganga fram eins og þeir hafa gert með auglýsingum að undanförnu.