131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Grunnnet fjarskipta.

531. mál
[15:01]

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Hér er verið að ræða um grunnnet fjarskipta. Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið og vegna þeirrar umræðu sem varð á dögunum um þingsályktunartillögu um sölu Símans þar sem mönnum varð tíðrætt um grunnnet Símans og grunnnet fjarskipta langar mig að spyrja hv. fyrirspyrjanda, Jón Bjarnason, hver munurinn er á grunnneti Símans og vegakerfinu og hins vegar raforkudreifingarkerfinu, Landsneti, að hans mati? Sér hann þetta sem eitt og hið sama? Mig langar að vita það. Ég held að það sé spurning sem þurfi að fá svar við í þinginu því menn eru að rugla vegakerfinu, Landsneti sem sér um háspennulínurnar og grunnneti Símans saman. Ég vil því gjarnan fá svör frá hv. þingmanni um það hvort hann álítur að þetta sé eitthvað skylt.