131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Grunnnet fjarskipta.

531. mál
[15:02]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er einmitt spurning hvað menn eru að tala um þegar þeir tala um grunnnetið. Er verið að tala um koparvírinn sem liggur í flest hús og að einhverju leyti í kringum landið plús ljósleiðarana? Ég held að menn séu í grunninn að tala um það en málið er mun flóknara. Það eru einir 18 þættir sem hægt væri að skoða sem grunnnetsþjónustu ef menn vildu skilgreina þetta sem svo en grunnnetið er ekki til skilgreint að lögum. Er það t.d. uppbygging á grunnneti sem Orkuveita Reykjavíkur er að gera með uppbyggingu ljósleiðarakerfis inn á hvert heimili frá Akranesi og austur á Selfoss? Er það uppbygging á grunnneti sem ástæða er til að hafa afskipti af? Er GSM-kerfið grunnnet að hluta eða öllu leyti?

Hvernig vill hv. þm. Jón Bjarnason skilgreina hugtakið grunnnet?