131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Grunnnet fjarskipta.

531. mál
[15:05]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég man eftir ræðum hæstv. ráðherra hvað þessa hluti varðar. Þegar verið var að tala um alþjónustu áttu lögin um alþjónustu að leysa öll þessi mál og tryggja að það yrði ekki margföld fjárfesting í grunnnetum.

Að ætla að þvæla mönnum í að skilgreina hvað grunnnetið er skiptir ekki óskaplega miklu máli. Það sem skiptir máli (Gripið fram í.) er að þeir sem eru á markaðnum leggi saman þau net sem þeir hafa og að sameiginlegur aðgangur myndist að fyrirtæki sem ræki þau net. Þannig er hægt að gera hlutina. Það þarf ekki að skylda alla til að leggja þau net sem þeir hafa í slíkt fyrirtæki. En með grunnnetum Símans til viðbótar þeim grunnnetum sem aðrir aðilar hefðu áhuga á að leggja inn í það væri hægt að mynda svo öflugt net til flutninga á gögnum, sem allir hefðu aðgang að, að markmiðin næðust. Þetta ættu menn að skilja og að því ættu menn heldur ekki að hlæja.