131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Grunnnet fjarskipta.

531. mál
[15:09]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að hv. þm. Jón Bjarnason kemur gersamlega af fjöllum í málinu og hefði átt að taka smá námskeið hjá Orkuveitu Reykjavíkur þar sem Vinstri grænir ráða lögum og lofum að mér skilst. Þeir ágætu stjórnmálamenn sem þar eru á vettvangi eru að bjóða núna að lagður verði ljósleiðari inn á hvert einasta heimili á stóru svæði í samkeppni við önnur fjarskiptafyrirtæki. Þrátt fyrir það, sem er grundvallaratriði, að lög segja svo fyrir um að Síminn verði að hleypa öðrum fjarskiptafyrirtækjum inn á net sitt, inn á heimtaug, þannig að ef einhver er að tala um offjárfestingu (Gripið fram í.) er það á vegum annarra en Símans.

Virðulegur forseti. Ég fór yfir það áðan, en það virðist sem hv. þingmaður hafi ekki heyrt það einhverra hluta vegna, að ég sem samgönguráðherra fól Póst- og fjarskiptastofnun að leita eftir því hvort hægt væri að koma á samstarfi fjarskiptafyrirtækjanna til að byggja upp eitt öflugt net til að dreifa stafrænu útvarpi og sjónvarpi. Niðurstaðan varð sú að það var ekki vilji til þess og það er einmitt fjarskiptafyrirtækið sem nú auglýsir hverja heilsíðuna á fætur annarri sem hafnaði því samstarfi sem Síminn var tilbúinn að fara út í. (JBjarn: Gera aðra tilraun.) Þetta er staðreynd málsins og hv. þingmaður ætti að kynna sér það ef hann vill.

Það er alveg ljóst að þegar við samþykktum á Alþingi heimild til sölu á hlutabréfum í Símanum lá fyrir úttekt til þess bærra sérfræðinga að það væri hvorki af tæknilegum ástæðum, öryggisástæðum fjarskiptanna né hagkvæmnisástæðum skynsamlegt að aðgreina eitthvað sem mætti kalla grunnnet áður en Síminn yrði seldur. Þetta var niðurstaða í þinginu. Það var farið mjög rækilega yfir málið og hv. þm. Jón Bjarnason ætti að kynna sér þá umræðu og þá umfjöllun og þær skýrslur sem lágu fyrir áður en ákvörðunin var tekin. Hún var tekin af umhyggju fyrir uppbyggingu fjarskiptakerfisins og vegna þess að við vorum að hugsa um hagsmuni ríkisins og um leið hagsmuni almennings.