131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Þróun íbúðaverðs.

[15:35]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu.

Það er ljóst að um er að ræða margar samverkandi ástæður fyrir hækkun fasteignaverðs. Fyrir liggur að það hefur hækkað jafnt og þétt frá árslokum 1998. Það er því varhugavert að taka of djúpt í árinni um þróun næstliðinna ára.

Ein skýring hækkandi fasteignaverðs er aukinn kaupmáttur launa. Fram á það hefur verið sýnt að laun og fasteignaverð leita jafnvægis gagnvart hvort öðru til lengri tíma litið. Frá því í janúar 1996 til janúar 2005 hefur kaupmáttur launa aukist um nálægt 30% yfir tímabilið í heild. Þessi mikli kaupmáttarauki skýrir þó ekki nema að hluta til þá miklu hækkun sem hefur orðið á húsnæðisverði undanfarna mánuði.

Í kjölfar innkomu bankanna á þennan markað í fyrrasumar bötnuðu lánamöguleikar fyrir kaupendur stærri eigna verulega. Það virðist hafa leitt til þess að hækkun sérbýlis hefur verið tvöföld á við hækkun í sambýli á undanförnum sex mánuðum. Því má halda fram með góðum rökum að nokkuð hafi skort á að raunverð hafi verið á stærri eignum á undanförnum árum.

Á síðustu missirum höfum við hins vegar einnig séð hækkanir sem ekki virðast að fullu skýrast af markaðslögmálum. Kanna þarf hvort einhverjir markaðsbrestir séu fyrir hendi sem koma í veg fyrir að verðlag endurspegli raunverulegt framboð eigna, eins og stundum virðist vera. Til að reyna að varpa ljósi á það hef ég óskað eftir því við Rannsóknarsetur í húsnæðismálum á Bifröst að það skoði hvaða þættir það eru sem vega þyngst í þróun fasteignaverðs undangenginna mánaða.

Hæstv. forseti. Við undirbúning hækkunar hámarksláns Íbúðalánasjóðs var ávallt gert ráð fyrir að það yrði í áföngum á kjörtímabilinu. Höfuðáhersla var lögð á að forðast að breytingin leiddi til verðspennu á fasteignamarkaði. Liður í því var m.a. að viðhalda þaki á hámarkslánum Íbúðalánasjóðs. Bankarnir hófu að veita íbúðalán í lok ágústmánaðar án hámarksfjárhæðar og upp að 80% af verðgildi eigna. Sú breyting hafði auðvitað áhrif til hækkunar fasteignaverðs, eins og Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið bentu á á þeim tíma. Við þessar breyttu markaðsaðstæður voru engar forsendur til að halda áfram þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að hækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs yrði í áföngum enda lánaframboð bankanna margfalt á við framboð Íbúðalánasjóðs. Það hefði ekki haft nein áhrif á fasteignaverð þótt möguleikar þeirra sem minna hafa milli handanna og fólks á landsbyggðinni hefðu verið skertir með því að vængstýfa Íbúðalánasjóð með hægfara hækkun hámarksláns.

Þetta var samhljóða niðurstaða Alþingis 2. desember sl. þegar samþykkt var að 90% lán yrðu að veruleika samhliða verulegri hækkun hámarksláns sjóðsins.

Eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson bendir á hefur ítrekað komið fram að lítið samstarf virðist vera milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að stuðla að jafnvægi í framboði byggingarlóða. Jafnframt hafa að undanförnu borist fréttir af geysiháum tilboðum við útboð sveitarfélaga á byggingarrétti. Jafnvel má segja að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafi fundið þarna nýjan tekjustofn því draga má í efa að í öllum tilvikum hafi kostnaður sveitarfélaganna af landakaupum og gatnagerð verið jafnmikill og þeir fjármunir sem þau innheimta fyrir byggingarréttinn.

Ég er sammála hv. þingmanni um að ekki sé eðlilegt að lóðaúthlutun verði sveitarfélögum að sérstakri tekjulind, og sveitarstjórnir hljóta að verða að gæta sín á því að stuðla ekki með aðgerðum sínum að hækkun fasteignaverðs. Ég tel jafnvel koma til álita að setja í lög ákvæði um grunn lóðaverðs og mun láta kanna kosti og galla slíkrar lagasetningar. Ég hef í hyggju að ræða við sveitarfélögin um þessi mál á næstu vikum og heyra sjónarmið þeirra. Ég tek þannig undir það með hv. þingmanni að full þörf sé á að skoða þetta mál betur.

Hæstv. forseti. Aðeins rúmir tveir mánuðir eru síðan Alþingi samþykkti lög um innleiðingu 90% íbúðalána. Um það mál náðist þverpólitísk sátt og í því fólst bein viðurkenning á því að Íbúðalánasjóður hafi áfram mikilvægu hlutverki að gegna á íbúðalánamarkaði. Það hefur ekkert breyst í þessu efni frá samþykkt laganna og ég tel ótímabært nú að ræða hugsanlegar breytingar á hlutverki Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn þarf þó að sjálfsögðu að aðlaga sig breyttum aðstæðum í viðskiptaumhverfi sínu.

Eftir innkomu bankanna á íbúðalánamarkaði í ágúst sl. varð strax vart samdráttar í markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs. Meginástæðan var án efa sú að hámarkslán sjóðsins höfðu undanfarin ár ekki fylgt verðlags- eða launaþróun. Með hækkun hámarksláns í 14,9 millj. kr. virðist ágætt jafnvægi vera komið á. Jafnframt var viðmiðun við brunabótamat íbúðar hækkað úr 85% í 100%. Hlutdeild Íbúðalánasjóðs í nýjum lánum til íbúðakaupa er nú í kringum 50% en var um 75% þegar mest lét.

Hæstv. forseti. Ég hef ítrekað sagt að fullt tilefni sé til að fagna þeim lágu vöxtum sem nú bjóðast íbúðakaupendum fyrir forgöngu Íbúðalánasjóðs og það er von mín að vextir muni halda áfram að lækka. Ég tel hins vegar augljóst að Íbúðalánasjóður hafi áfram mikilvægu hlutverki að gegna og að sjóðurinn tryggi ákveðinn stöðugleika á íbúðalánamarkaði. Þrátt fyrir að sú breyting sem orðið hefur á lánsframboði sé jákvæð fyrir þróun húsnæðismarkaðar er jafnljóst að sjóðurinn og sú fyrirgreiðsla sem hann veitir er forsenda fyrir jöfnum aðgangi almennings að lánsfé til fasteignakaupa óháð búsetu eða fjárhagslegri forsögu. Það hefur ekki breyst.