131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Þróun íbúðaverðs.

[15:46]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja ræðu mína á að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að færa þetta mál til umræðu á þinginu.

Þróun fasteignaverðs að undanförnu hefur ekki farið fram hjá nokkrum Íslendingi. Verð á íbúðarhúsnæði hefur hækkað umtalsvert á nokkrum mánuðum, einkum á höfuðborgarsvæðinu og öðrum nágrannabyggðum höfuðborgarsvæðisins.

En hvað veldur þeirri þróun? Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið svo fyrirsjáanlegur að kenna lóðaskorti og skipulagsmálum í Reykjavíkurborg um hækkunina. Aðrir, þá sérstaklega talsmenn framsóknar, hafa kennt bönkunum um. Það hljóta að teljast einkennileg rök að lóðaskorti sé um að kenna í okkar fámenna landi. Enn einkennilegri eru þau rök framsóknarmanna að tilvera bankanna á fasteignamarkaðnum eigi sök á verðhækkunum, sérstaklega í ljósi þeirrar staðreyndar að Íbúðalánasjóður starfar í dag með sparisjóðunum á þessum markaði.

Þá hlýtur að teljast eðlileg þróun, eftir einkavæðingu ríkisbankanna, að bankarnir taki að sér lánveitingar til neytenda á fasteignamarkaði. Þessi umræða mun og getur eingöngu endað á einn veg: Stokka verður upp starfsemi Íbúðalánasjóðs á þann veg að hann fari alfarið af samkeppnismarkaði við bankastofnanir og taki að sér þrengra hlutverk sem lúti að veikari byggðum samhliða því félagslega hlutverki sem hann á að gegna. (Gripið fram í.)

Því miður er Sjálfstæðisflokkurinn í gíslingu Framsóknarflokksins hvað þessar þörfu breytingar varðar enda Íbúðalánasjóður sem heilagur kaleikur sem enginn má hreyfa við. Engra nýrra frétta er að vænta frá vinstri flokkunum tveimur í þessu máli enda eru ríkisafskipti eingöngu af hinu góða á þeim bænum. Svo virðist sem Frjálslyndi flokkurinn sé eina stjórnmálaaflið í landinu sem talar fyrir þörfum breytingum á Íbúðalánasjóði enda aðhyllist flokkurinn frjálst markaðskerfi og hafnar ríkisforsjá svo lengi sem hvers kyns sérréttindi og einokun verða ekki á hendi einkaaðila eftir breytingar.