131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Þróun íbúðaverðs.

[15:55]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart þótt talsmenn nýfrjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum hafi það að meginmarkmiði að tala niður Íbúðalánasjóð. (Gripið fram í: Ekki gleyma Frjálslynda flokknum.) Hins vegar hygg ég að mörgum sjálfstæðismönnum sem aðhylltust sjónarmiðið „stétt með stétt“ hafi ekki endilega hugnast boðskapur frjálshyggjumanna Sjálfstæðisflokksins, að höfuðmeinið í íslenskum húsnæðismálum væri Íbúðalánasjóður og að hann þrengdi sér inn á markað bankakerfisins í húsnæðismálum. Drottinn minn dýri!

Hitt er alvörumál hver staðan er, hversu gríðarlega húsnæðiskostnaður hefur vaxið af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar, að bankarnir reyna að þrengja sér inn á markaðinn og yfirtaka með þessum hætti. Vísitala húsnæðiskostnaðar síðan árið 1997 hefur nær tvöfaldast, vaxið um 100% meðan neysluverðsvísitalan hefur hækkað um rúmlega 30%. Vísitala fasteignaverðsins spilar mjög stóran þátt í almennri hækkun á neysluverðsvísitölunni. Húsnæði er ekki lengur bara nauðsynlegt til að koma sér upp þaki yfir höfuðið heldur er það orðin verslunarvara. Ég hef þess vegna lagt fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um hvort ekki væri rétt að skoða hlut fasteignaverðsins í vísitölunni.

Er það rétt að fasteignaverðsbóla á höfuðborgarsvæðinu, keyrð áfram með þeim hætti sem hér hefur verið rakið, eigi að keyra upp vísitöluna fyrir alla landsmenn með þeim afleiðingum að lánin hækki og gengið hækki og atvinnuöryggi og staða atvinnuveganna bíði tjón af? Er það rétt?