131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Staðan í viðræðum um verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

[10:41]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að afkoma sveitarfélaganna hefur verið með öllu óviðunandi í um einn og hálfan áratug og þetta vita allir Íslendingar nema hæstv. félagsmálaráðherra. Síðustu ár hefur keyrt um þverbak og halli sveitarfélaganna verið að meðaltali 2–4 milljarðar á hverju einasta ári. Framkoma ríkisins í þessum samskiptum er sú að lengi vel reyndi ríkið að neita því að ræða þessa núverandi stöðu sveitarfélaganna og eingöngu átti að mega ræða samkvæmt óskum ríkisins um verkefnatilfærslur og tekjur þeim tengdar. Það á sem sagt að keyra áfram pólitík Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að svelta sveitarfélögin til hlýðni, svelta þau til eignasölu og einkavæðingar.

Tilboð ríkisins nú felur eingöngu í sér bráðabirgðalausnir, smámola, tímabundin framlög í jöfnunarsjóð og millifærslur á fjármunum úr sjóðum sveitarfélaganna sjálfra. Ef tímabundnu greiðslurnar eru dregnar frá stæðu kannski eftir 600–800 millj. kr. í varanlegum fyrirheitum. Öllum tillögum sveitarfélaganna um varanlega úrlausn, um varanlega hlutdeild í almennum sköttum, veltusköttum eða umferðargjöldum er hafnað.

Framkoma fulltrúa ríkisins er þannig að það er ekki hægt að kalla annað en svívirðilega. Sveitarfélögunum er stillt upp við vegg. Þeir er sagt núna: Tilboð ríkisins er endanlegt, það verður um enga frekari fjármuni að ræða og ráðherrar hafa ekki umboð til að semja um neitt annað. „Take it or leave it“ er sagt við sveitarfélögin. Og ganske pent er þeim tilkynnt að skilyrði þess að ríkið skrifi undir sé að sveitarfélögin falli frá öllum meginkröfum sínum. Þetta tilkynnir aðalfulltrúi ríkisvaldsins í samskiptum fulltrúum sveitarfélaganna.

Þetta er þvílík framkoma við sveitarfélögin og það er svo fráleitt að láta sér detta í hug að menn fari að taka við nýjum verkefnum frá ríkinu ef andinn í þessum samskiptum á að vera svona, (Forseti hringir.) ekkert annað en tímabundnir plástrar til að halda sveitarfélögunum áfram í sömu úlfakreppunni.