131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Staðan í viðræðum um verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

[10:44]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það hefur gengið hægar í vinnu tekjustofnanefndar en mörg okkar höfðu vænst þegar lagt var upp í þá vegferð að efla sveitarstjórnarstigið. Þær nefndir sem unnið hafa að verkefninu voru verkefnisstjórn, sameiningarnefnd og tekjustofnanefnd.

Fljótlega kom í ljós ágreiningur innan tekjustofnanefndar um hlutverk nefndarinnar og lögðust störf hennar niður. Hinar nefndirnar störfuðu ótrauðar áfram og skiluðum við, sem sitjum í verkefnisstjórn, skýrslu um flutning verkefna síðastliðið vor og sameiningarnefnd í haust.

Ekki náðu nefndarmenn í tekjustofnanefnd að stilla saman strengina fyrr en höggvið var á hnútinn í september síðastliðnum með sérstakri yfirlýsingu fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra og formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga um hvernig unnið skyldi að málinu.

Nú fer að hilla undir lok vinnu tekjustofnanefndar en eftir er að vinna tæknilegar útfærslur. Einnig er ljóst að sumar tillögurnar kalla á lagabreytingar sem koma til kasta Alþingis. Við hljótum að líta svo á að verkefnið sé að koma til móts við þau sveitarfélög sem verst standa og hafa orðið fyrir hvað mestum búsifjum vegna byggðavanda.

Áfram hefur jöfnunarsjóður mikið hlutverk með höndum. Svo verður áfram svo lengi sem sveitarfélögin eru svo misstór sem raun ber vitni og eru að kljást við mjög misjafnan vanda. Það má ekki gleymast í umræðunni að það er krafan í efnahagsstjórninni að hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, beiti ýtrasta aðhaldi. Ef það verður ekki gert spennist gengið upp með hækkandi vöxtum, útflutningsfyrirtækin og þar með oft á tíðum undirstöðufyrirtæki í hverju sveitarfélagi þola ekki frekari áföll í gengismálum. Til þeirra þátta verða sveitarstjórnarmenn að líta sem og aðrir sem á þeim bera ábyrgð.

Með vaxandi umsvifum sveitarfélaganna í opinberum rekstri verður að efla samráð ríkis og sveitarfélaga í hagstjórninni og fjármálum hins opinbera. Einnig er eðlilegt að lagafrumvörp sem snúa að sveitarfélögunum verði kostnaðarmetin áður en þau koma til umfjöllunar og samþykktar á Alþingi. Það á einnig við um Evróputilskipanir sem gera kröfur gagnvart sveitarfélögunum. (Forseti hringir.) Á móti er einnig eðlilegt að gerðar séu auknar kröfur til fjárhagsstjórnar sveitarfélaganna. Bæði stjórnsýslustigin fara með skattfé borgaranna og þeim ber að skoða hlutverk sitt með jafnmikilli ábyrgð.