131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Staðan í viðræðum um verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

[10:51]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Við þá umræðu sem hér fer fram er rétt að minna á tilefni verkefnisins. Frumkvæðið kom frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þegar hún leitaði til félagsmálaráðuneytisins um að fara í átak til að sameina sveitarfélög. Ástæður þess eru augljósar. Menn telja flestir að sumar stjórnsýslueiningar minnstu sveitarfélaganna séu það smáar að þær geti illa þjónað þeim kröfum sem nútímasamfélag gerir og séu á engan hátt búnar til að taka við frekari verkefnum. Það kann að vera ein meginástæða þess að opinber stjórnsýsla skipar sér hérlendis þannig að 70% eru á vegum ríkisins og 30% á vegum sveitarfélaganna öfugt við nágrannaþjóðir okkar. Við erum með öðrum orðum miðstýrðari.

Ósk sambandsins snerist eingöngu um sameiningu og þar hefur mikið verið unnið af mjög öflugri nefnd. En fljótlega þróaðist málið yfir í að menn fóru að ræða um eflingu sveitarstjórnarstigsins með það í huga að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga og um það liggja fyrir tillögur núna. Jafnframt fór málið að snúast um fjármál sveitarfélaga, hina eilífu deilu um skiptingu kökunnar milli ríkis og sveitarfélaga. Hún er ekki ný af nálinni og henni mun ekki ljúka, en ég fagna yfirlýsingu hæstv. félagsmálaráðherra þar sem nú hillir undir lausn á því máli.

Menn verða að fara að svara því hvort þeir vilji enn horfa á hin upphaflegu markmið. Tillögur þar að lútandi eru klárar. Menn verða að svara því hvort þeir vilji efla sveitarstjórnarstigið, efla þjónustuna meðal íbúa landsins og færa verkefnið frá ríki til sveitarfélaga. Ég fagna því að það skuli hilla undir lausn því þetta er eitt af stærri verkefnum sem við höfum glímt við í stjórnmálum, að draga úr miðstýringu og færa þjónustuna frá ríkisvaldi yfir til sveitarfélaga.