131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Staðan í viðræðum um verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

[10:55]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna. Hér á hinu háa Alþingi hefur oft verið tekin umræða um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Ég hef starfað í nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins þar sem sameiningarmál sveitarfélaga er stærsta málið. Nefndin er í biðstöðu með að loka tillögum sínum þar til tekjustofnanefnd hefur lokið störfum.

Við nefndarmenn finnum það á sveitarstjórnarmönnum að niðurstaða þeirrar nefndar getur skipt miklu um framhald um sameiningu sveitarfélaga. Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga vegur ekki þungt á móti. Rekstur margra sveitarfélaga er mjög erfiður og hefur sjaldan verið erfiðari. Flutningur á rekstri grunnskólanna frá ríkinu hefur verið þeim dýr. Skýringin er ekki sú að sveitarfélögin hafi ekki fengið nógar tekjur á móti yfirtöku þeirra heldur sú að nærþjónustan og metnaður sveitarfélaganna við að auka þjónustu sína hefur tekið til sín meiri rekstrarkostnað þar sem verið er að þjónusta umfram það sem lögbundið er. Nú er svo komið að flest sveitarfélög þurfa að fullnýta tekjustofna sína til að mæta aukningunni og dugar ekki til hjá mörgum sveitarfélögum.

Frú forseti. Ríkissjóður hefur komið til móts við sveitarfélögin með viðbótarfjármagni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eða um 2,9 milljarða frá árinu 1999. Einnig hafa verið tryggðir fjármunir í gegnum jöfnunarsjóð til að aðstoða einstök sveitarfélög við sameiningu. Á næstu fimm árum erum við að ræða um 2,4 milljarða. Það eru helst minni sveitarfélög sem njóta framlaganna, sem er mjög eðlilegt. Við erum að ræða um litlar einingar þar sem það er mjög dýrt að sinna lögbundinni þjónustu. Jafnframt er staða landsbyggðar með þeim hætti að íbúum fækkar og skattgreiðendum fækkar þar af leiðandi líka. Þótt íbúum fækki er ekki alltaf hægt að spara hlutfallslega jafnmikið í rekstri því lögbundin og eðlileg þjónusta þarf að vera til staðar.

Frú forseti. Það er lykilatriði í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga að niðurstaða fáist í eitt skipti fyrir öll. Hvort sem um er að ræða ríkissjóð eða bæjarsjóði þurfa þeir aðilar sem veljast til þess að fara með yfirstjórn peningamála á viðkomandi stað að axla þá ábyrgð sem því fylgir að vera kosnir í þessi miklu ábyrgðarstörf. Með miklum skattalækkunum núverandi ríkisstjórnar er ljóst að það er ekki til endalaust svigrúm til að færa fjármagn til. En niðurstaða og lokatillögur í málinu þurfa að vera sanngjarnar svo báðir aðilar geti gengið sáttir frá borði.