131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[11:02]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að mæla fyrir breytingartillögu við 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. og við 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. jafnframt.

Þetta mál er þannig vaxið að það fór til allsherjarnefndar sem stóð sameiginlega að breytingartillögum á því frumvarpi sem fyrir nefndina var lagt. Það atriði sem ég mæli hér breytingartillögu fyrir varðar birtingu á erlendum frumtexta milliríkjasamninga.

Sú afstaða mótaðist í allsherjarnefnd við meðferð málsins þar að fara bæri varlega við að innleiða hér heimildir til að taka upp tilvísunarleið í frumvarpinu, tilvísunarleið sem gerði það að verkum að hægt væri að birta í A-deild og B-deild með tilvísun til texta sem áður hafði birst í C-deildinni á erlendu frummáli. Fyrir þessu voru færð rök í nefndaráliti allsherjarnefndar.

Eftir að nefndarálitið kom út bárust mér sem formanni nefndarinnar athugasemdir frá utanríkisráðuneytinu sem fer með ábyrgð á birtingu þeirra texta sem þar fara í gegn. Ég kallaði því til funda í nefndinni og málið var nokkuð rætt þar.

Í kjölfar þess tefli ég fram þeirri breytingartillögu sem hér liggur frammi á þskj. 840 og felur það í sér að opnað er fyrir það að með lagasetningunni verði sérstaklega heimilað að beita tilvísunarleiðinni annars vegar þegar um er að ræða birtingu í A-deild og svo hins vegar þegar um er að ræða birtingu í B-deildinni, þá verði tilvísunarleiðin heimil þegar leyfi dómsmálaráðherra er fengið.

Ég tel að þessi breyting komi mjög til móts við þá aðila sem bera ábyrgð á birtingunni í þessum efnum og jafnframt sé gætt að þeim sjónarmiðum sem nefndin hafði í huga þegar hún ákvað að stíga varlega til jarðar í þessu efni. Ég tel að þessi breyting sé skynsamleg, sé nauðsynleg fyrir framkvæmdina og það sé í engu ógnað því meginmarkmiði sem nefndin hafði í huga á sínum tíma að það væri algjör meginregla að þeir textar sem rötuðu inn í Stjórnartíðindi til birtingar væru á íslensku.