131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[11:41]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Þetta mál hefur átt sér svolítið langan aðdraganda í allsherjarnefndinni. Við byrjuðum að ræða það fyrir jól og fljótlega kom í ljós að ákveðnar efasemdir voru meðal allra nefndarmanna hv. allsherjarnefndar hvað laut að þýðingum EES-gerðanna.

Fyrst ber kannski að nefna að megintilgangur þessa frumvarps lýtur að því að heimila rafræna birtingu á stjórnvaldsfyrirmælum og lögum sem í sjálfu sér er jákvætt að mínu mati. Hins vegar rakst hv. allsherjarnefnd mjög fljótlega á ákveðinn vafa sem laut að þýðingu EES-gerðanna. Ég held að þetta mál sé einmitt spurning um togstreitu milli hagræðisembættismanna, lagatextanna og þeirra grundvallaratriða sem lögin byggja á.

Ég held að gríðarlega mikilvægt sé fyrir hv. þingmenn að vera á bremsunni þegar embættismenn leita eftir heimildum og öðru slíku í nafni hagræðis, þegar teflt er í tvísýnu hvort það standist lög. Hér er um að ræða EES-samninginn. Hann er ekki bara milliríkjasamningur, hann er lög. Það er búið að lögfesta EES-samninginn þannig að hann er alveg eins og hver önnur lagaákvæði sem gilda hér á landi.

Hér er um að ræða afskaplega afdráttarlausa skyldu til þýðinga á EES-gerðinni, 129. gr. EES-samningsins. Orð eins og „skulu“ og „gerðir“ á íslensku koma fram í þeirri grein. Ég sé ekki hvernig þessi grein EES-samningsins veitir það svigrúm sem breytingartillaga hv. þm. Bjarna Benediktssonar lýtur að. Þetta er skýrt orðalag hvort sem við viljum það eða ekki. Þótt við vildum kannski vísa í eitthvert hagræði eða annað slíkt sé ég ekki hvernig við getum komist fram hjá þeirri afdráttarlausu skyldu sem er nú þegar í lögunum.

Breytingartillaga allsherjarnefndar sem bæði minni hluti og meiri hluti samþykktu og ákváðu að leggja fyrir þingið og var samþykkt hérna fyrir nokkrum dögum laut að því að heimildina sem um er að ræða í 2. gr. og 3. gr. megi ekki nýta til að innleiða óþýdda þjóðréttarsamninga í landsréttinn með tilvísunaraðferð. Þetta var skilningur og vilji meiri hluta nefndarinnar þegar við lögðum fram þessa breytingartillögu. Í millitíðinni bárust athugasemdir frá utanríkisráðuneytinu, og í kjölfarið á því frá dómsmálaráðuneytinu, um að þetta mundi takmarka svigrúm þeirra of mikið og að þetta væri afskaplega óheppilegt þegar kæmi að ákveðnum lagagerðum sem mönnum fannst ekki praktískt að þýða.

Ég get alveg tekið undir að það er ekkert praktískt að þýða járnbrautagerðir hér á landi. Hins vegar eru þær hluti af EES-gerðinni, þar af leiðandi á lögunum og þar af leiðandi á að þýða þær. Síðan má deila um aðrar gerðir sem ráðuneytið vísaði til að ætti ekki að þýða, eins og evrópska þjóðhagsreikninga eða tilskipun um flutninga á hættulegum efnum og jafnframt ákveðnar flugreglur.

Hversu þægilegt sem við teljum það vera að sleppa því að þýða þessar gerðir er sú skylda á okkur að þetta skuli verða þýtt. Á meðan EES-samningnum hefur ekki verið breytt hvað þetta varðar teljum við okkur ekki komast fram hjá því.

Það er fróðlegt að rifja það upp að þegar frumvarpið var lagt fyrst fram sögðu fulltrúar ráðuneytisins að hugsunin bak við það væri ekki að heimila óþýddar EES-gerðir í landsréttinn. Nefndin vildi taka af allan vafa, gerði þessa breytingartillögu sem við samþykktum við 2. umr. málsins og setti í nefndarálit sitt þar sem meiri hluti og minni hluti voru báðir sammála. Þar stendur, í nefndaráliti allrar allsherjarnefndar, með leyfi forseta:

„Til að taka af allan vafa telur nefndin þó rétt að bæta við 2. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 3. gr. ákvæði þess efnis að þær heimildir sem þar eru nefndar til að vísa til birtingar skv. 4. gr. laganna eigi eingöngu við um reglur sem hafi verið birtar og þýddar á íslensku.“

Síðan eftir að við erum búin að samþykkja þetta koma athugasemdir frá embættismönnunum um að þetta gæti valdið þeim einhverju óhagræði.

Þess vegna treysti ég mér ekki til að styðja þetta mál í ljósi skýrs lagatexta og lagaskyldu á okkur um að þýða EES-gerðirnar hvort sem við viljum það eða viljum ekki og burt séð frá öllu hagræði. Ég held að í þessu samhengi sé mjög mikilvægt að þingmenn séu á bremsunni þegar embættismenn kalla eftir heimildum til hagræðis og annars slíks. Hér er í húfi ákveðinn lagatexti, ákveðin grundvallaratriði sem við höfum í raun ekki svigrúm til að breyta, að mínu mati, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson er að leggja til í sinni breytingartillögu við breytingartillöguna. Mig grunar að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans séu að einhverju leyti að leggja fram þessa breytingartillögu við breytingartillöguna með talsvert óbragð í munni. Í ljósi þess hvernig umræðan var í allsherjarnefndinni þá vildu menn fara varlega í þetta. Þeim fannst skýrt að tilgangurinn hefði ekki verið að opna á óþýddar EES-gerðir. En nú er verið að gera það annars vegar með almennum lögum eða með leyfi ráðherrans og þá er ég að tala um í tilviki B-deildarinnar.

Ég held því að á meðan við höfum þessa skyldu í 129. gr. EES-samningsins, sem er bæði lagaleg skylda og þjóðréttarlegs eðlis, getum við ekki farið þá leið sem felst í breytingartillögu við breytingartillögu sem hv. þm. Bjarni Benediktsson leggur til að við samþykkjum hér.