131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[12:37]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt andsvar við ræðu hv. þingmanns þar sem ég er næstur á mælendaskrá og mun koma inn á nokkur atriði úr ræðu hans í ræðu minni á eftir. Það er þó eitt atriði sem er nauðsynlegt að bregðast við strax, þ.e. þegar hv. þingmaður gaf í skyn að stjórnarandstaðan væri á einhvern hátt að fresta eða tefja málið. Það eru ásakanir sem standast engan veginn skoðun.

Þannig er þessu máli háttað að hæstv. menntamálaráðherra lagði það loksins fyrir þingið í desembermánuði, þ.e. að lokinni afgreiðslu fjárlaga sem var auðvitað býsna óeðlilegt, þannig að ef tafir eru einhvers staðar á málinu þá eru þær áður en málið kom til þings.

Menntamálanefnd brást afar skjótt við og náði að halda fund í nefndinni og koma málinu til umsagnar fyrir jólaleyfi þingsins en gat hins vegar ekki fjallað um það fyrr en að loknu jólaleyfi, þ.e. í lok janúarmánaðar. Málið kom síðan til 2. umr. á þriðjudag í síðustu viku og þá vildi svo óheppilega til að hæstv. ráðherra var ekki viðstödd. Þetta er eitt stærsta mál sem frá ráðuneytinu hefur komið. Það var auðvitað afar óheppilegt en það er auðvitað rétt að vekja athygli á því að hæstv. forseti sá til þess að umræðunni lauk ekki fyrr en hæstv. ráðherra gat verið viðstödd og það er auðvitað fagnaðarefni og afar eðlilegt.

Umræðan um málið hefur í raun og veru ekki verið löng, 1. umr. var ekki löng og 2. umr. stendur enn yfir. Það verður að teljast eðlilegt í svo stóru máli að það þurfi nokkrar klukkustundir til að fara yfir það í þingsal og mér finnst fullfljótt að hv. þingmaður fari að kvarta yfir því eða gefa það í skyn að stjórnarandstaðan sé að tefja málið með þeim hætti.

Það var síðan ákvörðun stjórnar þingsins eða vegna þess að hæstv. ráðherra gat ekki verið við fyrr en í dag að 2. umr. hélt ekki áfram nú fyrr en rúmlega viku eftir að hún hófst. Það er að sjálfsögðu ekki við stjórnarandstöðuna að sakast í þeim efnum.