131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Samþætting jafnréttissjónarmiða í íslensku friðargæslunni.

[13:12]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa þörfu umræðu. Í skýrslunni sem hér um ræðir segir, með leyfi forseta:

„Vöxtur friðargæslunnar hefur átt sér stað samhliða stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um samþættingu jafnréttis- og kynjasjónarmiða en án nokkurrar sýnilegrar skörunar.“

Hér sýnist mér að hnífurinn standi í kúnni. Niðurstöður skýrslu Birnu Þórarinsdóttur rökstyðja í öllum atriðum þá gagnrýni sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa haft uppi á verkefnaval íslensku friðargæslunnar. Framkvæmdaáætlanir ríkisstjórnarinnar um jafnrétti kynjanna, bæði gamlar og nýjar, virðast ekki hafa haft nein áhrif á störf og stefnumótunina í utanríkisráðuneytinu. Þar virðist skorta bæði þekkingu og pólitískan vilja til að standa við stóru orðin, hvort sem þau falla hér í þessum ræðustóli eða á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York.

Íslenska friðargæslan er í mínum huga skilgetið afkvæmi karla, fyrst og fremst ætluð til að veita körlum störf, og ekki síst til þess að ýta undir þá ímynd Íslands á alþjóðlegum vettvangi að við séum tilbúin í samstarf, tilbúin í hörðu pakkana eins og það var einu sinni orðað, og að láta til okkar taka jafnvel þegar það krefst vopnaburðar.

Það er kominn tími til að snúa blaðinu við, að stefna friðargæslunnar og starf hennar sé raunverulega á þeim breiða grundvelli sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi í ræðu sinni. Það þarf að sýna það í verki, hæstv. forseti, og það þýðir að við breytum stefnunni í verkefnavali íslensku friðargæslunnar og sönnum það að friðargæsla er ekki karlmannsstarf.