131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:24]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Einkar sérkennileg umræða á sér stað um Tækniháskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur hér á þingi. Mér finnst hún markast af mikilli fordæmisfælingu hjá Samfylkingunni fyrir því að taka upp breytt rekstrarform í rekstri háskóla á Íslandi. Það hefur skýrt komið fram í menntamálanefnd að Hástoðir, sem eru rekstraraðili hins nýja skóla, hafa sjálfar tekið þá ákvörðun að nota rekstrarformið einkahlutafélag. Þær hafa sjálfar gert það og rökstutt með þeim hætti að þrír aðilar komi að rekstri skólans, nýir aðilar séu að koma inn og það sé hagfelldast fyrir þá að reka þessa stofnun á sem skynsamlegastan og bestan hátt með þessu rekstrarformi.

Það er rétt sem kom fram hjá þingmanninum áðan, Einari Má Sigurðarsyni, að þeir þekkja þetta rekstrarform og þeir þekkja það af góðu einu. Þess vegna vilja þeir eðlilega nota það.

Mér fannst gengið nokkuð langt hér áðan með þeim hótunum sem þingmaðurinn hafði í máli sínu. Þær gengu út á það að þegar og ef Samfylkingin kæmist í menntamálaráðuneytið mundi hún umsvifalaust slíta þeim samningum sem giltu milli ríkis og þessa skóla. Þess vegna langar mig að spyrja þingmanninn: Gildir það einu þótt rekstrarformið og þessi nýja stofnun muni ganga vel? Munuð þið samt sem áður segja upp samningum og rjúfa tengsl ríkisins og þessara stofnana þrátt fyrir að stofnunin gangi vel, standi sig vel varðandi gæði og rekstur skólans? Munuð þið samt sem áður segja upp samningum við þessa aðila?

Mér finnst þetta marka mest fordæmisfælni Samfylkingarinnar, að þora ekki inn á nýjar brautir á sama tíma og mikil gróska er í bæði atvinnulífi og skólastarfi á Íslandi.