131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:33]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gaman þegar hv. þingmenn fara í dómarasætið og fara að dæma mál annarra. Ég ætla að sleppa því í þetta skiptið því mér finnst það alltaf jafnóviðeigandi þegar það er gert vegna þess að það er eiginlega lágmark að við virðum það að við þurfum ekki endilega að hafa alltaf sömu skoðun á öllum málum og það kemur út af fyrir sig ekki fátækt eða ríkidæmi nokkurn skapaðan hlut við. En hver verður auðvitað að velja sínar leiðir í málflutningi og ég ætla út af fyrir sig ekki að hafa neinar skoðanir frekar á því.

Hins vegar er afar merkilegt að hv. þingmaður telur það vera sérkennilega dregna ályktun af máli hv. þingmanns í fyrri ræðu að ég gerði nokkurt mál úr því að hv. þingmaður væri að draga ályktanir af einni setningu í bréfi menntamálaráðuneytisins og gerði töluvert mikið úr því. Ef það hefur ekki verið stór hluti af rökstuðningi hv. þingmanns bið ég auðvitað afsökunar á því að hafa dregið of miklar ályktanir. En ég tek eftir því að m.a. í andsvari sem hv. þingmaður svaraði í þessari umræðu kemur þetta fram, með leyfi forseta:

„Ég sagði hér að það ætti að skoða kosti þess að hefja kennslu í tæknifræðum í fleiri skólum og þá sérstaklega þeim ríkisreknu til að fjölga valkostunum.“

Svo kemur það sem máli skiptir:

„Þetta er fullkomlega í samræmi við yfirlýsingu frá menntamálaráðuneytinu sem hv. menntamálanefnd barst og þar stendur í niðurlagi þeirrar yfirlýsingar, með leyfi forseta:“

Og setningin kemur þá sem ég las hér áðan og ég taldi að verið væri að draga ályktun af. Ef ég hef eitthvað misskilið þá sýnist mér hv. þingmaður hafa að einhverju örlitlu leyti misskilið sjálfa sig líka.