131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:36]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki erfitt út af yfir sig að þurfa að vera á móti þessu máli sem slíku enda erum við á móti ákveðnum þáttum (Gripið fram í.) í því en ekki endilega málinu sem slíku í heild. Það er hins vegar ekki vandamál út af fyrir sig fyrir okkur að vera á móti einstaka málum, það var það sem ég ætlaði nú að segja, heldur er það auðvitað erfitt fyrir okkur að við skulum ekki ráða för og vera hér á fullu í því að bæta háskóla og koma skikki á þessi mál öll í heild sinni og reyna að lagfæra það sem miður hefur farið í of langan tíma. Það er auðvitað það sem er okkur býsna erfitt og það skal viðurkennt.

Það er hins vegar merkilegt sem hv. þingmaður kemur hér með, og ég get út af fyrir sig verið sammála, að þetta sé ákveðin framtíðarsýn.

En það sem ég var að vekja athygli á er að mér þótti nokkuð frjálslega dregnar ályktanir af einni setningu í yfirlýsingum menntamálaráðuneytisins og þess vegna er það afskaplega mikilvægt að hæstv. ráðherra svari því hvort í þessari setningu felist það loforð til ríkisháskólanna sem hv. þingmaður var að gefa í skyn og byggði að hluta til a.m.k. (Forseti hringir.) afstöðu Framsóknarflokksins í málinu.