131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:50]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér taldi mig hafa sagt skoðun mína á frumvarpi þessu og því hvernig verklagið var við frumvarpið. Ég taldi upp þessa þrjá þætti sem ég hafði vissar efasemdir um, m.a. akademískt frelsi. Ég skoraði á skólann að bregðast við því. Skólagjöldin óttast ég að dragi úr aðsókn að skólanum þegar þjóðfélagið kallar í raun á frekari tæknimenntun. Mér fannst ég gera nokkuð skilmerkilega grein fyrir skoðunum mínum.

Ég held að flestir ef ekki allir óski skólanum velfarnaðar, vilji að starf hans gangi vel hvort sem menn styðja frumvarpið eða ekki. Ég hef vissar efasemdir en við í Frjálslynda flokknum, eins og fram kom í ræðunni, hefðum án efa staðið með öðrum hætti að því. Ég tel að ég hafi talað nokkuð skýrt út með það.